Uppgjör við ESB mál Borgarahreyfingarinnar.

Nú er liðinn rúmur mánuður frá ESB máli Borgarahreyfingarinnar sem segja má að sé upphafspunktur þess óróa sem allar götur síðan hefur leikið hreyfinguna grátt, svo nú má segja að hún hafi tapað trúverðugleika sínum.

Það hefur svo margt verið sagt ósatt í þessum málum og snúið útúr öðru, einkum og sér í lagi að það hafi aldrei verið stefna Borgarahreyfingarinnar að hefja aðildarviðræður við ESB.

Mig langar því fyrst að benda á þetta sem Þór Saari skrifaði á síðu hreyfingarinnar skömmu fyrir kosningar.  Þarna er skýrt hver stefna hreyfingarinnar er í þessum málum.

http://www.borgarahreyfingin.is/2009/04/24/thor-saari-esb-og-kjarkleysid/

Þarna segir meðal annars: 

“Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum. Að þeim loknum mun aðildar samningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllum í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf.
Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratvæði.

Þetta er skynsöm leið og í raun eina færa leiðin ef menn yfirhöfuð hafa áhuga á að velta fyrir sér framtíðarkostum Íslands og taka raunhæfa afstöðu til þeirra.

Sú stefna einangrunarsinnana í Heimsýn og fjölmagrara annarra svo sem Sjálfstæðisflokksins einkennist af hræðslu við umheiminn og hræðslu við að treysta fólkinu í landinu og er í alla staði ólýðræðisleg. Sá fyrirsláttur Sjálfstæðisflokks að það þurfi fyrst að kjósa um aðildarviðræður er ömurleg birtingarmynd kjarkleysis þeirra sem ekki einu sinni þora að viðurkenna að þeir hafi skoðun á móti ESB.”

Þannig var nú það. Svo segir þinghópurinn nú að Borgarahreyfingin hafi enga stefnu haft í ESB málum.

 

Svo er hér tilvitnun í Þór Saari úr þinghúsbréfi um ESB málið, skrifuðu 11. júli:

“Borgarahreyfingin hafði sett fram þrjú skilyrði fyrir stuðningi við málið, öll sem varða lýðræðislega og vandaða afgreiðslu málsins og hlut þau öll framgang í nefndarálitinu.”

Af þessu má ljóst vera að stuðningur þinghópsins við frumvarpið var afdráttarlaus.  Þess er þó ekki getið þarna sem síðar kom fram að það var eitt í viðbót sem þinghópurinn náði í gegn sem gjald fyrir stuðninginn.  En það var að stjórnarflokkarnir tryggðu þingmönnum Borgarahreyfingarinnar sæti í þingnefndum, umfram það sem þingstyrkur sagði til um. 

Reynar kom svo síðar upp deila milli XO og Samfylkingar um þetta samkomulag þar sem Borgarahreyfingin taldi að þetta samkomulag myndi einnig gilda um stjórnir og nefndir utan þings, svo sem stjórn Seðlabankans, Þingvallanefnd, kjörstjórnir og eitthvað fleira.  Samfylkingin sagði svo ekki vera.  Þessi ágreiningur kom upp skömmu fyrir afgreiðslu ESB málsins.

 

17 júlí talar svo Þór um hvernig þau sviku sín loforð:

“Kúvending þriggja þingmanna Borgarahreyfingarinnar í afstöðunni til ESB hefur eðlilega verið mikið í fréttum og sitt sýnist hverjum. Á eftir fara skýringar mínar sem ég setti fram í lokaræðunni um ESB á þinginu í dag sem talsmaður þinghóps Borgarahreyfingarinnar. Þetta var ekki ákvörðun sem var tekin í skyndingu og þetta var ekki ákvörðun sem var auðveld enda leiddi hún okkur inn í pólitískt landslag sem við höfðum öll verið sammála um að fara aldrei inn á.

Í þessu tiltekna tilviki töldum við okkur geta náð fram ákveðnum áherslum í s.k. ICESAVE máli en ICESAVE samningarnir og samþykkt þeirra er sennilega eitthvert það versta sem gæti gerst fyrir þjóðina. Til þess að annað hvort stöðva eða breyta umfjöllun ríkisstjórnarflokkana um ICESAVE samningana töldum við rétt að leggja allt undir sem hægt var, þar á meðal stuðning okkar við ESB aðildarumsóknina. Loforð okkar við ríkisstjórnina um stuðning við ESB málið var að vísu gefið áður en okkur varð ljóst að aðgöngumiðinn að ESB var samþykkt ICESAVE samningana, en hvað um það, loforð var það engu að síður.”

Þrátt fyrir þetta allt þá var það ekki afstaðan í málinu sem var gagnrýnd, heldur vinnubrögðin. Þingmenn ákváðu upp á sitt einsdæmi að versla með stefnu hreyfingarinnar, án samráðs við grasrót og stjórn. Svokallað flokksræði var því orðið staðreynd í stað lýðræðislegu vinnubragðanna sem boðuð voru.

Það var þó ekki það sárasta í þessu máli. Sárast var að þinghópurinn taldi sig svo ekki hafa gert nein mistök og héldu því til að mynda blákalt fram að hreyfingin hefði ekki haft stefnu í þessum ESB málum. Í ofanálag vakti það svo athygli að á fundum sem haldnir voru í hreyfingunni þegar allt logaði í óánægju þá mætti í besta falli einn þingmaður en oftast enginn. Til að bæta svo gráu ofan á svart stærði Þór Saari sig af því að þessir fundir væru gagnslausir af því að hann mætti ekki.

Þetta er ástæðan að stór hópur fólks innan hreyfingarinnar hefur misst trúna á þinghópnum. Og ekki bara innan hreyfingarinnar heldur í öllu þjóðfélaginu.

Það er helst að áhangendur Heimsýnar og aðrir harðir ESB andstæðingar sem bera blak af þingmönnum og mæra þá vegna viðsnúningsins í ESB málum. Ég tek það fram að ég á ágæta vini í Heimssýn og virði þeirra störf, hef ekkert út á þau samtök að setja. En þá er aftur ágætt að rifja upp hvað einkunn samtökin fengu hjá Þór Saari fyrir kosningar:

“Sú stefna einangrunarsinnana í Heimsýn og fjölmagrara annarra svo sem Sjálfstæðisflokksins einkennist af hræðslu við umheiminn og hræðslu við að treysta fólkinu í landinu og er í alla staði ólýðræðisleg”

Nú er landsfundur Borgarahreyfingarinnar framundan.  Þar er nauðsynlegt að fara yfir þessi mál ef takast á að endurheimta trúverðugleika hreyfingarinnar.  Á fundinum verða lagðar fram nýjar samþykktir þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að svona vinnubrögð endurtaki sig.  En það er ekki nóg.  Þinghópurinn þarf að vinna sér traust að nýju, bæði innan hreyfingar og meðal þjóðarinnar.  Þar er mikið verk fyrir höndum en þó er það fyrst og fremst vilji allt sem þarf.  En er sá vilji fyrir hendi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Jónsson

Þetta er góð greinargerð á málinu og ljóst að Þór Saari er engu betri en þeir sem hann fordæmi þ.e. Heimssýn og Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég leyfi mér þó að efast um að Borgarahreyfingin öðlist traust og virðingu aftur en skv. skoðanakönnunum er fylgið nú langt undir því sem þarf til að ná manni á þing.

Kjartan Jónsson, 1.9.2009 kl. 15:41

2 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Hvar var sú skoðanakönnun Kjartan?

Jón Kristófer Arnarson, 1.9.2009 kl. 15:51

3 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Þetta er nákvæmlega eins og ég upplifði þetta.  Fannst ekki gott að hafa verið gerð að ómerkingi, þar sem ég margtuggði þessa stefnu okkar í evrópumálum í gegnum kosningabaráttuna.  Ég verð þó að segja að innganga í ESB var (og er) ekkert forgangsmál í mínum huga.  Hefði viljað sjá margt annað gert fyrst. En ég tek undir með þér að það voru vinnubrögðin í kringum þennan viðsnúning sem fóru í mig.

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 1.9.2009 kl. 15:57

4 Smámynd: Kjartan Jónsson

Sú nýjasta sem ég veit um var gerð af Reykjavík Síðdegis.



http://www.bylgjan.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=47579

Kjartan Jónsson, 1.9.2009 kl. 16:25

5 identicon

Góð úttekt. Nú er hins vegar Icesave málið til lykta leitt á Alþingi og öll skjöl orðin opinber. Því leikur mér forvitni á að vita hvaða eitraðu gögn það voru sem Þór Saari og þremenningarnir fundu á tímabilinu 11. - 15. júlí sem olli því að Þór Saari sem fagnaði ESB þingsályktuninni í þingræðu 10. júli var á móti henni í þingræðu 16. júlí.

Friðrik Þór Guðmundsson lýsir þessu í bloggfærslu 16. júlí: "Mér virðist að þremenningarnir telji sig hafa fengið svo hrikalegar upplýsingar um Icesave að varði því að gengið sé á svig við fyrra samkomulag við stjórnarflokkana. Ég vil vita hvað það er. Til dæmis vil ég vita meira um þetta "aftasta skjal" í leyniskjalamöppunni, sem bara þingmenn hafa fengið að sjá og eru bundnir trúnaði. Það varðar Parísar-klúbbinn."

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 16:35

6 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Ég hef því miður ekki aðgang að þessari möppu Ómar.

Jón Kristófer Arnarson, 1.9.2009 kl. 17:09

7 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Það var reyndar að koma ný könnun.  Fylgið fellur um fjórðung milli mánaða og hefur fallið um þriðjung frá því mest var, áður en ESB málið kom upp. 

Fylgið er nú í fyrsta skipti komið undir það sem það var í kosningum.  Mælist nú 6% en var 7% í kosningum.  Mældist hæst 9% í júní.

Góðu fréttirnar eru að við eigum enn fylgi til að koma mönnum á þing.  Ef okkur tekst nú að spyrna í botninn og endurheimta traust, þá erum við komin til að vera  .

Jón Kristófer Arnarson, 1.9.2009 kl. 18:24

8 Smámynd: Þór Saari

Sæll Jón.

Mér þykir leitt að þú skulir sjá okkur þingmenn sem Akkilesarhæla Borgarahreyfingarinnar.  Staðreyndin er hins vegar sú að við öll höfum fengið mjög mikinn stuðning við kúvendinguna í ESB málinu enda var hún gerð til að reyna að forða öðru verra.  Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem hefur samband við okkur lýsir einnig furðu sinni á málflutningi sumra (örfárra) sem tilheyra hreyfingunni okkar en ganga nánast stanslaust fram fyrir skjöldu og hjakka í sömu gagnrýninni þó marg oft sé búið að svara henni.  Það eru þeir sem þurfa að ákveða hvort þeir ætla að vinna áfram að málefnum hreyfingarinnar og þar með leggja aftur undirstöður að trausti á hreyfinguna, eða að halda áfram með ómálefnalega gagnrýni út í hið óendanlega.

Þór Saari, 1.9.2009 kl. 18:31

9 identicon

Jón Kristófer og þið hin sem sjáið B.H. eingöngu sem staupastein í þeirri þrautar göngu  að sækja um aðild í ESB.

Þið verðið að viðurkenna pólitískt þrot ykkar þar sem þið sitjið nú við sama keyp og ráðþrota ríkisstjórn Samspillingar og V.G.

Sem Ekkert hefur þeim orðið ágengt í sínum loforðum um að slá skjaldborg um heimilin, ekkert hefur verið aðhafst til að styðja krónuna eða efnahaginn og fyrirtækin í landinu! Ekki ein króna hefur verið kyrrsett, hvað þá endurheimt! Ekki einn einasti glæpon verið kyrrsettur hvað þá handtekinn. 

Var það þess virði að eiða öllu sumrinu í svona bull,  ESB umræður og Iceslave? Nei

Skammist þið ykkar fyrir að styðja niðurrifsöflin í þessu landi og beina kröftum þeirra sem eru að reyna að vinna eftir stefnuskrá B.H.  

P.s. Ég er viss um að Samspillingin er opin fyrir ykkur.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 23:35

10 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Þakka þér fyrir innlitið Arnór. 

Það gætir nokkurs misskilnings hjá þér.  Ég lít ekki á B.H. eingöngu sem tæki til að fara inn í ESB.  Satt að segja er ég sammála þér að mörg mál eru meira aðkallandi.  Er reyndar enginn sérstakur ESB sinni og er auðvitað ekki búinn að gera upp hug minn í því máli, enda enginn samningur sem liggur fyrir.

Ef þú lest færsluna hér að ofan þá er ég fyrst og fremst að gagnrýna vinnubrögðin og reyni að gera það á málefnalegan hátt.  Ég vildi gera það sem endapunkt á þessa umræðu eða uppgjör við það mál að minni hálfu, svo það sé frá og ég geti horft til framtíðar.

Gagnrýnin gengur aðallega út á sambandsleysi þinghóps við hreyfinguna.  Satt að segja hefur verið mikil óánægja innan hreyfingar með þau mál.  Til dæmis hafa fjölmargir stjórnarmenn sagt sig úr stjórn af þeim sökum.  Þá var nýlega borin upp á félagsfundi tillaga um að lýsa fullum stuðningi við þinghóp en sú tillaga var kolfelld. 

Þór segir hér svo að vandamálið séu örfáir einstaklingar, sem sýnir auðvitað svo ekki verður um villst að áhyggjur okkar í XO um að sambandið mætti vera betra eru á rökum reistar.

En auðvitað getur þinghópurinn tekið sig á í þessum efnum eins og ég bendi á í lok færslunnar.  Vilji er þar allt sem þarf.

Jón Kristófer Arnarson, 2.9.2009 kl. 00:30

11 identicon

Gott og vel, auðvitað í hita leiks fer eitt og annað úrskeiðis. Ég og þú erum sjálfsagt engar undantekningar frá því að gera mistök. Rétt sem þessir ungu þingmenn okkar.

En í heildina er ég bara þræl stoltur af þeim, og nú er lag að styrkja stefnuskrá á landsfundi og læra af fyrri mistökum og skapa þá innviði sem þjóðin þarfnast nú. Og koma á betri samskiftum þingmanna og stjórnar og hins almenna kjósanda hreifingarinnar.

Í þá hreifingu sem ein stendur utan 4flokka skrímslisins, og á nú kost á að virkilega stimpla sig inn í framtíðar líðræði þjóðarinnar með þeim breitingum sem stefnuskráin býður. Og eru svo aðkallandi fyrir land og þjóð.

Sameinaðir stöndum við, sundraðir föllum við.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 01:04

12 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Ég get alveg tekið undir mest af þessu Arnór, nema ég er ekkert sérstaklega stoltur af þinghópnum ef ég á að vera hreinskilinn.  Þó þau hafi gert marga góða hluti þá eru það rétt sem Þór heldur fram að mér finnst þau að mörgu leiti vera Akkilesarhæll hreyfingarinnar.  Trúverðugleiki þeirra hefur óneytanlega og óumdeilanlega beðið hnekki og fylgið hrynur hratt af hreyfingunni.  Þau geta eflaust unnið sér traust aftur en mér sýnist viljann skorta til að gera sér grein fyrir hvar vandinn liggur.  Saman ber athugasemd Þórs hér að ofan.  Meðan svo er þá er lítil von til þess að það gangi eftir að sameinuð stöndum við.  Ef þau halda að þetta sé bara óánægja örfárra þá er það einfaldlega rangt.  Þá væri þriðjungur fylgis ekki farið á örfáum vikum.

Margrét Tryggvadóttir hefur sett það fram í hálfkæringi að rétt væri að hafa það sem sérstakt atriði á landsfundi að henda vatnsblöðrum í þingmenn.  Auðvitað er þetta grín en öllu gríni fylgir einhver alvara.  Ég skil það svoleiðis að þau finnist vandamálið liggja í því að fólk innan hreyfingarinnar langi til að láta reiði sína bitna á þeim með einhverjum hætti og er það í samræmi við greiningu Þórs hér að ofan.  Svo er ekki.  Það er einfaldlega verið að gagnrýna vinnubrögð og enn hef ég engan séð eða heyrt, utan þingmennina sjálfa, sem eru sátt við þau vinnubrögð sem þar hafa viðgengist. 

Þú talar um framtíð lýðræðis þjóðarinnar Arnór.  Málið er að innan hreyfingar hefur skort lýðræðisleg vinnubrögð og ef eitthvað er þá er Borgarahreyfingin ólýðræðislegri en gengur og gerist meðal stjórnmálahreyfinga.  Þetta þarf að bæta og til þess þarf að gera tvennt.  Annars vegar að innleiða ný vinnubrögð og þar er mikilvægast að ganga frá þeim drögum af samþykktum sem liggja fyrir.  Hitt er svo að Þinghópurinn sé tilbúinn að viðurkenna mistök sín og sýna vilja til að ná sáttum við óánægjuradda innan hreyfingar.  En þar er svo aftur komið að hæl Akkilesar.

Jón Kristófer Arnarson, 2.9.2009 kl. 09:25

13 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Jón og Ingifríður, takk fyrir síðast, en segiði mér hvernig er að vera svona?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 2.9.2009 kl. 21:16

14 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Takk sömuleiðis, og fínt. 

Það var gaman að sjá þig.  Sjáumst hressir á aðlafundi.

Jón Kristófer Arnarson, 2.9.2009 kl. 21:46

15 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

O nei O nei Jón ég kem ekki, ég ætla ekki að vera í hreyfingu þar sem stjórn verður mynduð að fólki sem í senn er troðfullt af hatri og þrjósku dauðanns, með þetta fólk sem nú hefur boðið sig Fram, sem er sjálfsagt gott fólk, verður hreyfingin að engu ég ætla ekki að eyða peningum eða tíma í aðalfundinn eða fleyri fundi, en við skulum sjá hvort ekki bjóði sig fleyri Fram áður en ég segi mig úr hreyfingunni.

Bestu kveðjur um gott gengi

Þessi Högni

Högni Jóhann Sigurjónsson, 3.9.2009 kl. 09:52

16 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Sæll Högni og takk sömuleiðis.

Það er bara alveg ágætt að vera svona, en ég er auðvitað ekki hlutlaus í því mati :)

Við erum ekki komin í stjórn og ég reikna með að fullt af öðru góðu fólki komi til með að bjóða sig fram.  Það er því góð ástæða fyrir þig til að mæta á landsfund.  Þú getur kosið hina.

Ég trúi, öfugt við þig, að einmitt þetta fólk geti bjargað hreyfingunni, en geri mér um leið grein fyrir því að ekki eru allir sömu skoðanar og ég og til þess hafa þeir fullt leyfi. 

Vonast til að sjá þig á landsfundinum, þrátt fyrir að ég viti að atkvæðið þitt fari annað.

Bestu kveðjur,

Inga

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 3.9.2009 kl. 10:24

17 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Að sjálfsöggðu höfum við leyfi til að vera ásammála og ekki dettur mér í hug að við ekki getum talað saman þrátt fyrir það, ég ræð þokkalega við það, en það var annað að sjá á sumu fólki þarna á stjórnarfundinum, sem nærist á gremju og hatri, ég bara kann ekki nöfnin þeirra svo ég get ekki talið þau upp.

Enn ég skal telja upp það fólk sem ég mundi segja að hafi verið þarna af heilindum, það voru Baldvin sem ég var mjög ánægður með sem fundarstjóra og honum fer mikið Fram sem formaður svo var það GAndri og konan sem sat við hliðina á Margréti og þinghópurinn, hin voru þarna til þess að reyna að finna eitthvað til að misskilja og eða gera leiðindi úr, ég skal viðurkenna að ég gat ekki lesið ykkur Jón þarna en sá samt að ekki liðu margar mínútur frá því að talað var um á fundinum að fólk skyldi nú reyna að vera jákvætt og stefna nú að landsfundinum að fólk var aftur farið að rakka hvert annað niður á bæði heimasíðu BH og sínum eigins bloggum

Högni Jóhann Sigurjónsson, 3.9.2009 kl. 11:09

18 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Borgarahreyfingin hefur misst trúverðugleika og fylgi.  En nú er bara að spyrna í  botninn og mæta hress og kát og full bjartsýni á Landsfundinn.  Leysa málin og horfa jafnt til upphafsins sem framtíðarinnar. 

Við verðum samt að greina vandann og ræða hann undanbragðalaust, líkt og á félagsfundinum í byrjun ágúst.  Þar ríkti einstaklega góður andi þó fólk væri ekki sammála um alla hluti.  Þannig stemmingu vil ég sjá á Landsfundinum.

Jón Kristófer Arnarson, 3.9.2009 kl. 15:55

19 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

ég þarf að sjá annan hóp í Framboði svo ég fari Jón, mér líst ekki á þetta lið sem ekki hefur gert annað en að tæta hreyfinguna innan frá og er svo veruleikafyrt að í stað raunveruleika er nóg pláss fyrir hatur og þrjósku í heilanum á því, nei takk.

Mér hefur alltaf fundist soldið hallærislegt að sjá dreyfibréf sent út í nafni einhverra einstaklinga, Jón er ykkur alveg fyrirmunað að hugsa sjálf eða sögðuð þið ykkur undir það að XX mundi hugsa fyrir ykkur og senda ykkur bréf sem þið síðan skrifuðuð undir og settuð á bloggið ykkar, fariði öll með diktafón með ykkur heim?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 3.9.2009 kl. 16:34

20 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Högni, þetta fólk er alveg ljómandi gott fólk.  Þú hefðir átt að vera á fundinum þar sem við gengum frá bréfinu í sameiningu.  Hressleki og jákvæðni og enginn gramur.

Jón Kristófer Arnarson, 3.9.2009 kl. 18:38

21 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég efa það ekki Jón að þetta er hið mesta sómafólk, ég var að velta fyrir mér Jón þurftuð þið að kaupa digtafónana sjálf og þurfiði að skila spólunum af ykkur á hverjum degi?

Ég hafði aldrei séð þetta fyr en þarna um kvöldið og hvað kjerlingargreyið varð reið yfir að þurfa að slökkva á því, ég held reyndar að hún hafi ekkert slökkt.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 3.9.2009 kl. 18:57

22 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Það sem Borgarahreyfingin þarf á að halda er fólk sem getur fjallað á jákvæðan hátt um hreyfinguna og það sem þar er raunverulega að gerast bæði innan hennnar og í hópum sem tengjast BH beint og óbeint.

Það voru 13.519 kjósendur eða 7,22% sem studdu BH í síðustu kosningum, marga fleiri langaði en treystu sér ekki til.

Skattahækkanir, niðurskurður, skuldsetning, lántaka, enn meiri skuldsetning, ofurvextir, gjaldþrot fyrirtækja, gjaldþrot heimila, hylming yfir þeim ábyrgu, skuldum þeirra velt yfir á almenning, börnin skuldsett, bæði fædd og ófædd. Nei BH þarf ekki einhverja innri skæruliðastarfsemi það er nóg af henni á Íslandi í dag. Ísland þarf Borgarahreyfingu sem veitir íslendingum von. Von um að það verði hægt að búa á Íslandi á komandi árum.

Borgarahreyfingin þarf fólk sem getur unnið vel saman, hverjir svo sem það verða.

Baldvin Björgvinsson, 5.9.2009 kl. 11:44

23 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Sammála Björgvin.  Þetta er ákkúrat ástæðan fyrir því að við tólfmenningar fórum svona að.  Við treystum okkur vel til að vinna saman að þeim grundvallar hugmyndum sem hreyfingin fór af stað með.  Bjóðum alla velkomna að því starfi þó við höfum skrifað undir þetta tólf.

Jón Kristófer Arnarson, 5.9.2009 kl. 11:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband