30.3.2009 | 14:36
Skjaldborgir og Borgarahreyfingin.
Ég hitti ágæta vinkonu úr VG núna um helgina. Sagði henni að ég ætlaði að kjósa Borgarahreyfinguna. Jæja, sagði hún, hvað hefur ríkisstjórnin gert nú? Svarið var auðvitað augljóst. Ekkert!
Nýja ríkisstjórnin.Vissulega var ég einn af þeim sem fagnaði þegar síðasta ríkisstjórn fór frá völdum og sú nýja tók við með það sem megin markmið að slá skjaldborg um heimili og fyrirtæki, eins og það var orðað. Því miður hefur lítið orðið efndum og í stað þess að grípa til aðgerða sem einhverju máli skipta þá hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar kallað þá fífl og kjána sem eitthvað hafa reynt að koma fram með hugmyndir til bjargar heimilum í landinu.
Auðvitað er það svo að þessar hugmyndir sem fram hafa komið eru mis raunhæfar og misjafnlega sanngjarnar. En það er hreinn og beinn dónaskapur að vísa þessu frá sem einhverju rugli eða óþarfa. Miklu frekar hefði ríkisstjórnin átt að taka þessum hugmyndum fagnandi og vinna út frá þeim aðgerðir sem gætu staðið undir nafni sem skjaldborg um heimilin. Þess í stað afgreiðir ríkisstjórnin og forsvarsmenn hennar fram komnar tillögur með hroka og stærilæti. Nú síðast forsætisráðherra úr ræðustóli á landsfundi Samfylkingar.
Ekki var síður athyglisvert að sjá hvernig okkar ágæti fjármálaráðherra réðst að krafti gegn hugmyndum um niðurfærslu lána þegar þær komu frá pólitískum andstæðingum. Lét þó hjá líða að svara slíkum hugmyndum þegar þær komu frá hagfræðingi og frambjóðanda úr eigin flokki. Það þrátt fyrir að tillögur Lilju Mósesdóttur væru heldur dýrari en aðrar tillögur ef eitthvað er og síst sanngjarnari.
Oftar en ekki hafa þessar hugmyndir um niðurfærslu lána verið slegnar út af borðinu vegna þess að þær kosti þjóðfélagið of mikið. En þeirri spurningu er þá ósvarað hvað það muni kosta að fara ekki þessa leið? Hverjar verða afskriftir lána ef heimilin lenda umvörpum í gjaldþrotum? Verða það lægri tölur en þær sem afskriftir sem verða ef vísitalan verður færð niður í það sem hún var í ársbyrjun 2008 líkt og Borgarahreyfingin leggur til? Ég efast stórlega um það og er þá ótalinn allur sá kostnaður og hörmungar sem það mun leiða yfir íslenskt þjóðfélag að hér verði stór hluti heimila gjaldþrota og eignalaus og sjái ekki fram úr skuldum næstu árin eða áratugina.
Vandi heimilannaGrunn ástæðan fyrir vanda heimilanna er sú að lánin hafa hækkað langt umfram kaupmátt launa og langt umfram þær forsendur sem lántakendum voru gefnar þegar þeir tóku lánin. Gengið hefur fallið og ekki síst vegna aðgerða bankanna sjálfra og fyrrum eigenda þeirra, ásamt andvaraleysi stjórnvalda. Við það bætist vísitalan er í raun að mæla verðhækkanir út frá þeirri forsendum að neyslan sé með svipuðum hætti og var árið 2007, þegar hér ríkti þensla og verð á innfluttum vörum var helmingi lægra en nú er. Eðlilega hefur dregið úr neyslu á innfluttum vörum með lækkandi gengi krónunnar. Engu að síður eru hækkanir á þessum vörum reiknaðar að fullu inn í vísitöluna sem svo aftur eykur enn á greiðsluvanda heimilanna. Það er engin sanngirni í því.
Hugmyndir um einhverskonar leiðréttingu á vísitöluhækkun síðustu mánaða eru því ekki aðeins sanngjarnar heldur um leið í raun eina færa leiðin ef slá á skjaldborg um skuldug heimili. Þess vegna get ég tekið undir tillögur Borgarahreyfingarinnar í þessum efnum, eða að minnsta kostið litið á þær sem einhverskonar grunn að raunverulegum lausnum. Því ætla ég að kjósa Borgarahreyfinguna núna í komandi kosningum. Ég nenni ekki að fylgjast með næstu kosningum sem einhverri úrslitaviðureign gamla fjórflokkakerfisins þar sem allt sem kemur frá réttum flokki er algott og allt alvont það sem andstæðingarnir segja.
Ég vil að farið verði í raunverulegar aðgerðir til að bjarga heimilum og fyrirtækjum í þessu landi.
Ég vil að þjóðin eigi fulltrúa á þingi.
Fulltrúa sem koma fram með tillögur sem virka fyrir fólkið í landinu.
Fulltrúa sem leggja sitt lóð á vogaskálar til að vinna góðum tillögum brautargengi, sama úr hvaða átt þær kunna að koma.
Fulltrúa sem líta á það sem sitt hlutverk að vinna fyrir fólkið í landinu en líta ekki á stjórnmál sem kappleik fjögurra flokka þar sem markmiðið er að koma sinni ár sem best fyrir borð.
X-O
Flokkur: Bílar og akstur | Facebook
Athugasemdir
Því miður held ég að þessir smáflokkar fái ekki mann kjörinn á Alþingi í næstu kosningum. Þetta eru svo mörg ný framboð, sem eru;
A-listi Framfaraflokksins.
L-listi- Listi fullveldissinna.
N-listi Samtaka um réttlæti
O-listi Borgarahreyfingin
P-listi Lýðræðishreyfingarinnar.
Þetta eru í allt 6 ný framboð og þótt þau séu öll með góð málefni á stefnuskrá sinni verður dreifing atkvæða á þessi nýju framboð svo mikil. Það hefði verið vænlegra til árangurs ef þessi framboð hefðu sameinast í eitt. Þá hefði verið möguleiki. Nú er allt útlit fyrir að Frjálslyndi flokkurinn fái ekki mann kjörinn. Íslandshreyfingin sameinaðist Samfylkingunni, því þau töldu framboð ein og sér vonlaust.
Jakob Falur Kristinsson, 30.3.2009 kl. 15:05
Borgarahreyfingin er stærst þessara lista og á góða möguleika á að koma fólki á þing. Er að mælast yfir þrjúprósent nú og kosningabaráttan varla farin af stað.
Jón Kristófer Arnarson, 30.3.2009 kl. 15:55
Borgarahreyfingin á nú umtalsverða möguleika með 3,4% fylgi nú strax. Þakka þér annars fyrir þennan áhugaverða pistil.
Hilmar Gunnlaugsson, 31.3.2009 kl. 01:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.