Að bjarga því sem bjargað verður.

Það hafa verið mikil átök í kringum Borgarahreyfinguna og það ekki farið framhjá mörgum geri ég ráð fyrir.  Ég hef nokkuð tjáð mig um þá stöðu sem komin er upp en þó haldið mig mikið til hlés síðustu daga.  Ástæðan er sú að nú hafa átökin ekki síst snúist um Margréti Tryggvadóttur og þá þótti mér sem málið væri mér svo skylt að ég yrði að halda mig til hlés.  Afskipti mín af málinu væri hægt að túlka sem þingmannsdrauma þar sem ég er varamaður Margrétar.

 

Nú er það svo að það er ákaflega erfitt að horfa á hreyfinguna leysast upp.  Það var skipuð sáttanefnd sem var nauðsynlegt.  En síðan það var gert hafa svo mikil tíðindi orðið að í raun höfum við ekki andrými til að bíða eftir niðurstöðum hennar og enn síður aðalfundi sem ekki verður fyrr en eftir mánuð.  Við erum að sjá á eftir mörgu af lykilfólki hreyfingarinnar gefast upp og hætta.  Í raun er nú ögurstund og ef minnsta von á að vera til þess að bjarga því sem bjargað verður.

 

Í mínum huga er það kristal tært að þremenningarnir verða að segja af sér og þá ekki síst Margrét Tryggvadóttir.  Ég ætla ekki að leggja mat á hvað henni gekk til með skeytum sínum og yfirlýsingum í kjölfarið um að hún ætti ekkert vantalað við Þráinn Bertelsson.  Það að hún komi svo og segi að hún hafi einungis viljað honum vel virkar ekki trúverðugt í ljósi fyrri skeytasendinga.  Ég vil þó taka það fram að samskipti okkar Margrétar hafa verið með ágætum og ég ber engan kala til hennar.  En með sínum skeytum og ekki síður með viðbrögðum sínum í kjölfarið hefur hún skaðað hreyfinguna alvarlega og verður því að taka afleiðingunum.

 

Ég geri mér fulla grein fyrir því að sumum kann að þykja það óeðlilegt að ég tjái mig beint út með þessum hætti og túlka það á þann hátt að ég sé að vonast eftir þægilegu sæti á þingi.  Það ætti þó flestum að vera ljóst að það verður erfitt að koma inn á þing undir þessu andrúmslofti og varla drauma staða nokkurs manns.  Ég vildi engu að síður að mín afstaða kæmi fram í þessu máli.  Ekki síst vegna þeirra hörðu viðbragða sem meirihluti fundarmanna á stjórnarfundi í gær hafa fengið við sinni ályktun.  Þetta fólk er að gera sitt besta til að bjarga hreyfingunni og á heiður skilið.

 

Ef til þess kemur að ég taki þingsæti mun ég eftir fremsta mengi reyna að starfa í sátt og samlyndi við alla sem koma að málefnum hreyfingarinnar og leitast eftir samstarfi við þá þingmenn sem þá kunna að vera í þingmannahópi hreyfingarinnar.  Þar er Þráinn Bertelsson ekki undanskilinn þó hann hafi nú sagt sig formlega úr þinghópnum.  Þá mun ég leitast við sem bestu samstarfi við alla félaga Borgarahreyfingarinnar og kjósendur.  Verkefnin framundan eru mikilvæg á þingi en einnig er það risa verkefni fyrir höndum að byggja upp innra starf Borgarahreyfingarinnar að nýju og endurheimta trúverðugleikann sem óumdeilanlega hefur glatast.


mbl.is Margrét kalli til varamann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Billi bilaði

Getur þú útskýrt það nánar af hverju þrír eiga að víkja fyrir einum en ekki einn fyrir þremur? Er ekkert lykilfólk í þeim arminum? (Ég geri ráð fyrir að þetta séu 2 armar skv. því sem hægt er að lesa út úr bloggskrifum.)

Billi bilaði, 15.8.2009 kl. 11:38

2 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Ég held að það séu í raun engir skýrir armar í þessu máli Billi, þó vissulega séu þarna einhverjir hópar sem standa saman.  Ef ég hef skilið umræðuna rétt þá sýnist mér að Katrín og jafnvel Baldvin hafi stutt við bakið á þremenningunum, sem er hið besta mál.  Ef þessir armar eru til þá er ljóst að slíkir armar hefðu fulltrúa á þingi þó þremmenningarnir færu allir frá.  En ég trúi því að ef til þess kæmi þá myndum við geta unnið ágætlega saman.  Og það er kannski kjarni málsins.  Það væri besta leiðin til að sameina þessa hópa á ný og endurheimta traustið að þessir þrír þingmenn myndu víkja að minnsta kosti tímabundið.

Varðandi Þráinn þá hefur gagnrýni á hann mest snúist um að hann vilji ekki starfa með þremenningunum.  Það vandamál væri þá einnig úr sögunni ef þau víkja frá.

Það sem ég er að reyna að segja í þessum pistli er að hreyfingin er að leysast í sundur núna og það þarf að bregðast við strax.  Það var það sem þessir þrír stórnarmenn voru að reyna að gera.

Jón Kristófer Arnarson, 15.8.2009 kl. 12:00

3 identicon

Hvorki Margrét, Þór Saari né Birgitta hafa neina ástæðu til að segja af sér eða kalla inn varamenn.

Annað er með fjórða þingmanninn Þráinn. Hann hefur tekið hreyfinguna í gíslingu með frekju og fýluköstum.

Þremenningarnir kusu á annan hátt en hann í ESB málinu og hafði hann ekki talað við þau eftir það þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þeirra til að hafa samband við hann og reyna sættir. Það hugnaðist fórnarlambinu ekki og ákvað hann að gagnrýna þau í fjölmiðlum og í raun tjáði hann sig aðeins við þau í gegnum fjölmiðla ... með gífurlegum skaða fyrir Borgarahreyfinguna.

Nei, ef það er einhver sem á að kalla inn varamenn að þá eru það þremenningarnir sem sendu frá sér tilkynningu í fjölmiðla þrátt fyrir að hafa verið aðeins 3 af 8 sem höfðu þessa "skoðun" í stjórninni. Einnig á Þráinn að kalla inn varamann. Hann á ekki að stela þingsætinu sem kjósendur Borgarahreyfingarinnar eiga!

Þráinn fékk mörg hundruð útstrikanir frá kjósendum Borgarahreyfingarinnar en slapp samt inn. 

Með ágætri kveðju

Ósáttur kjósandi.

Kjósandi Borgarahreyfingarinnar (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 12:15

4 identicon

Varðandi Þráinn þá hefur gagnrýni á hann mest snúist um að hann vilji ekki starfa með þremenningunum.  Það vandamál væri þá einnig úr sögunni ef þau víkja frá.

Þvílíkur hroki.

Nei ég vona að þú komist aldrei inn á alþingi sem varamaður.

Þangað hefur þú ekkert erindi!

Kjósandi Borgarahreyfingarinnar (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 12:16

5 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Sem svar við númer 3 og 4.  Þráinn hefur staðið við stefnu hreyfingarinnar en hin voru gagnrýnd mjög fyrir hrossakaupin með ESB málið en kannski ekki síst að þau skuli ekki hafa verið í sambandi við stjórn, varaþingmenn og grasrót varðandi það mál.  Þar stóð Þráinn með stefnunni.  Þá er krafan nú komin upp vegna skrifa Margrétar og stuðnings Þórs og Birgittu við þau skrif.  Þar er ekki við Þráinn að sakast.  Þess vegna tel ég að mörgu leiti ómaklegt að fara fram á að hann víki en ég vona að Katrín, sem er hans varamaður, starfi náið með þinghóp áfram, hvernig svo sem hann kann að vera skipaður.  Ég tel mikilvægt í framtíðinni að varamenn verði mikið virkari en verið hefur hingað til.

Ég vona því að þetta sé ekki túlkað sem hroki þó ég sjái ekki alveg ástæðuna fyrir því að Þráinn ætti að víkja.  Ég er einungis að velta upp hvaða möguleikar væru skynsamlegastir í stöðunni. 

Þá vil ég taka það sérstaklega fram að ef ég nýt ekki stuðnings til að taka að mér þingmennsku, til dæmis vegna þessara skrifa hér, þá væri það mér bæði ljúft og skylt að hafna því sæti því það er nóg af góðu fólki í Borgarahreyfingunni.  Það væri þá væntanlega farið neðar á listann eins og lög gera ráð fyrir.

Jón Kristófer Arnarson, 15.8.2009 kl. 12:36

6 Smámynd: Lilja Skaftadóttir

Ég vil benda á þetta og beini þessu til allra þeirra sem ég tel misskilja vandamál hreyfingarinnar : Hingað til hefur stjórnin lofað þingmenn í bak og fyrir, ýmist persónulega, í skeytum, í símum og sín á milli. Hvað varðar ESB þá leyfðum við okkur að vera ekki ánægð með aðferð þingmanna hreyfingarinnar. Hér erum við einungis að ræða aðferðafræðina og er það vinna stjórnar að sjá til þess að unnið sé í anda þeirra stefnu sem hefur verið sett.

Jonni, það er ólíklegt að eitthvað áhrifamikið gerist, en ég veit að þú berð hag hreyfingarinnar fyrir brjósti. Það leiðinlega við þetta allt saman er að um samskiptaörðuleika er að ræða. 

Lilja Skaftadóttir, 15.8.2009 kl. 12:45

7 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Það getur verið Lilja að ekkert gerist og það er líklegt reyndar miðað við síðustu fréttir.  Persónulegir hagsmunir teknir fram yfir trúverðugleika hreyfingarinnar.  Það verður þá bara að vera svo.

Auðvitað er sárt að horfa upp á þetta vegna alls þess fólks sem lagði hart að sér til að breyta íslenskri pólitík.  En slík sár gróa.  Hitt er öllu alvarlegra að líklegt er að annað tækifæri gefist ekki í bráð, þegar þessu er klúðrað svo rækilegra.  Í því sambandi er þingsæti Margrétar Tryggvadóttur dýru verði keypt.

Mál Margrétar er að mörgu leiti svipað og mál Bjarna Harðarsonar, nema kannski öllu alvarlegra.  Bjarni reyndi að vega að pólitískum frama Valgerðar Sverrisdóttur en Margrét gekk mun lengra en það.  Svo er verið að tala um að Framsóknarflokkurinn sé spilltastur flokka.

Jón Kristófer Arnarson, 15.8.2009 kl. 13:04

8 Smámynd: Johann Trast Palmason

það hefði verið ansi skynsamlegt að koma ekki með þessa yfirlísingar sem þú gerðir hér og grafa þannig en frekar undan trúverðuleika hreyfingarinnar og auka á sundrunguna.

Þremeningarnir hafa fullan stuðning minn i þessari drama histeriu i fárvirði fáranleikans og virðist  þráinn hafa tekist ætlunarverk sitt að spiltta hreyfinguni innann frá og eru það þvílik vonbrygði hvernig þið hafið látið spila með ykkur og látið manúpulerast því þið áttuð að vita af sögu þessa manns að ethvað svona ættuð þið i vændum þar sem þið voruð vöruð við þvi i upphafi að það hefur alltaf fylgt honum.

Johann Trast Palmason, 15.8.2009 kl. 13:18

9 Smámynd: Guðmundur Andri Skúlason

Ég tek undir með þér Jón.

Þessi yfirlýsing þín er bæði nauðsynleg og málefnaleg. Hreyfingunni verður aðeins hægt að bjarga ef upp stendur það fólk sem í prinsippum sínum er tilbúið að fórna eigin egói til að vinna fórnfúst starf í þágu fjöldans.

Einnig er okkur nauðsynlegt að vinna að því sem við boðuðum og til þess þurfum við trúverðugleika.

Okkar vinna, sem áfram sitjum í stjorninni er að vinna að því að byggja upp þann trúverðugleika sem glatast hefur.

Fyrsti liður í því er að greina satt og rétt frá atburðum.

Guðmundur Andri Skúlason, 15.8.2009 kl. 13:37

10 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Tek líka undir með þér Jón.

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 15.8.2009 kl. 14:53

11 Smámynd: Billi bilaði

Takk fyrir svörin. Ég er samt ekki sannfærður.

Ekkert ykkar sem vill þremenningana í burtu sér nokkurn ljóð á Þráni. Enginn þeirra sem vilja Þráinn í burtu sér nokkurn ljóð á þremenningunum. (Samt eru þetta allt breyskar manneskjur, eins og þjóðin öll. Vorum við ekki að kjósa þjóðina á þing, en ekki dýrðlinga?)

Eruð þið alveg viss um að þið hafið hugsað málið til enda með hagsmuni Borgarahreyfingarinnar að leiðarljósi?

Heldur þú að bréf Margrétar hefði komið ef Þráinn hefði ekki neitað að tala við hin í mánuð og verið með allskyns yfirlýsingar um frekju þeirra og leiðindi?

ES: Mannorð Þráins er ekki skemmt að nokkru leiti vegna bréfs Margrétar. Veikindi, eða sögur þar um, skaða ekki mannorð. Einungis ill verk skaða mannorð; jú, og sögur þar um. Þeir sem öðru halda fram, og vilja blása málið upp á þeim forsendum, líður vel í "hlandforum sinna myrku huga", svo ég vitni nú í Þráinn.

Billi bilaði, 17.8.2009 kl. 01:24

12 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Veistu Billi, ég hef alveg heilmikið við störf Þráins að athuga.  Það runnu á mig fyrst tvær grímur gagnvart þinghópnum á fundi snemma í vor.  Þá flutti Gandri pistil sem vel má vera að hafi ekki verið sanngjarn eða réttur, bara veit það ekki.  En hann var málefnalegur.  Viðbrögð Þórs og Þráins voru afar hastarleg.  Þeir lögðu til að Gandri fengi ekki að tjá sig meira á fundinum.

Þráinn hefur líkt og flestir aðrir þingmenn nánast hundsað almenna fundi hjá hreyfingunni.  Þar hefur Margrét staðið sig lang best.  Þar sem þetta á að heita grasrótarhreyfing þá finnst mér þetta mjög alvarlegur hlutur.

En Þráinn hefur staðið við stefnuna og mér finnst hann ekki hafa unnið neitt það sem gæti réttlætt það að hann segði af sér þingmennsku.  Ég þekki Þráinn mjög lítið en mér finnst hann hafa verið með afar góða pistla um stjórnmál í gegnum tíðina og skarpa hugsun þegar kemur að þjóðfélagsmálum.  Því tel ég að hann yrði góður þingmaður fengi hann að njóta sín.  En vissulega má hann taka sig á með ýmsa hluti.  Ég vona að fyrr eða síðar komist á eðlilegt samband milli þingmanna og hreyfingar og þá muni Þráinn blómstra.  Og ég skal tala alveg hreint út.  Mér fannst afsagnarpistill Sigga Hr. magnaður.  Þar lagði hann reyndar til að öll fjögur vikju.  Ég gat tekið undir það til að fá bara hreint borð.  En eftir að þetta mál kom upp með tölvupóstana þá finnst mér rétt að Þráinn sytji áfram.  Ég tel annað nánast ómanneskulegt.  Ég hef því heitið sjálfum mér að veita Þránni fullan stuðning og standa með honum.  Mér finnst rétt og sanngjarnt að hann fái að sanna sig og bind miklar vonir við hann satt að segja.

Mér finnst eiginlega svona tvær megin áherslur uppi núna og hvorug snýst endilega með eða á móti Þránni eða þremenningunum.  Ég held að það séu allir sammála um það (nema Birgitta) að það sé óviðunandi ástand innan hreyfingarinnar og að það þurfi að leysa. 

Einn hópur vill horfa til sáttanefndar um þau mál og sjá til fram að aðalfundi.  Friðrik Þór, sá ágæti maður, hefur talað mjög fyrir því. 

Aðrir, svo sem stjórnartríóið, vill meina að það hafi gerst mjög alvarlegir hlutir síðan sáttanefnd var sett á laggirnar.  Til að mynda hafa ýmsir lykilmenn sagt sig úr stjórn svo ekki sé mynnst á tölvupóstmálið.  Því sé ljóst að sáttarnefnd muni ekki hafa erindi sem erfiði og hreyfingin sé því að liðast í sundur núna og því þurfi að bregðast við strax.  Ég er sammála þeim hópi. 

Sumir hafa talað um að Borgarahreyfingin sé þegar dauð.  Ég vona að svo sé ekki en ég óttast að hún komi ekki til með að lifa fram að aðalfundi nema eitthvað mikið og róttækt gerist til að endurheimta trúverðugleika og lægja öldur.  Hugsanlega geta þau verið á þingi áfram út kjörtímabil en hreyfingin sem slík væri hvorki fugl né fiskur.  Og þá væri, líkt og Siggi Hr. benti á, búið að stela þingsætunum af hreyfingunni.

Jón Kristófer Arnarson, 17.8.2009 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband