Bréf til Billa bilaða.

Ágætur maður hefur oft kveðið sér hljóðs á Mogga-bloggi og þá ekki síst í málefnum sem snúa að Borgarahreyfingunni.  Sá kallar sig Billa bilaða, sem er auðvitað rangnefni því ég held að Billi sé bráðgreindur, óbilaður og laus við alzheimer á byrjunarstigi.  Oftar en ekki þá er mikið til í því sem Billi leggur til málanna og svo var einnig í nýlegri athugasemd Billa á bloggi mínu, þar sem meðal annars kemur fram eftirfarandi:

 

Ekkert ykkar sem vill þremenningana í burtu sér nokkurn ljóð á Þráni. Enginn þeirra sem vilja Þráinn í burtu sér nokkurn ljóð á þremenningunum. (Samt eru þetta allt breyskar manneskjur, eins og þjóðin öll. Vorum við ekki að kjósa þjóðina á þing, en ekki dýrðlinga?)

 

Ég svaraði Billa og ætla að birta það svar hér í sér færslu, með örlítið breyttu orðalagi.

 

Veistu Billi, ég hef alveg heilmikið við störf Þráins að athuga.  Það runnu á mig fyrst tvær grímur gagnvart þinghópnum á fundi snemma í vor.  Þá flutti Guðmundur Andri (Gandri) pistil sem vel má vera að hafi ekki verið sanngjarn eða réttur, bara veit það ekki.  En hann var málefnalegur.  Viðbrögð Þórs og Þráins voru afar hastarleg.  Þeir lögðu til að Gandri fengi ekki að tjá sig meira á fundinum.

Þráinn hefur líkt og flestir aðrir þingmenn nánast hundsað almenna fundi hjá hreyfingunni.  Þar hefur Margrét reyndar staðið sig lang best.  Þar sem þetta á að heita grasrótarhreyfing þá finnst mér þetta mjög alvarlegur hlutur.

En Þráinn hefur staðið við stefnuna og mér finnst hann ekki hafa unnið neitt það sem gæti réttlætt það að hann segði af sér þingmennsku.  Ég þekki Þráinn mjög lítið en mér finnst hann hafa verið með afar góða pistla um stjórnmál í gegnum tíðina og skarpa hugsun þegar kemur að þjóðfélagsmálum.  Því tel ég að hann yrði góður þingmaður fengi hann að njóta sín.  En vissulega má hann taka sig á með ýmsa hluti.

 Ég vona að fyrr eða síðar komist á eðlilegt samband milli þingmanna og hreyfingar og þá muni Þráinn blómstra.  Og ég skal tala alveg hreint út.  Mér fannst afsagnarpistill Sigga Hr. magnaður.  Þar lagði hann reyndar til að öll fjögur vikju.  Ég gat tekið undir það á sínum tíma, til að fá bara hreint borð.  En eftir að þetta mál kom upp með tölvupóstana þá finnst mér rétt að Þráinn sitji áfram.  Ég tel annað nánast ómanneskjulegt.  Ég hef því heitið sjálfum mér að veita Þránni fullan stuðning og standa með honum.  Mér finnst rétt og sanngjarnt að hann fái að sanna sig og bind miklar vonir við hann satt að segja.

Ég held að það séu allir sammála um það (nema Birgitta) að það sé óviðunandi ástand innan hreyfingarinnar og að það þurfi að leysa.   Mér finnst eiginlega tvær megin áherslur uppi núna í hreyfingunni um þau mál og hvorug snýst endilega með eða á móti Þráni eða þremenningunum.   

Einn hópur vill horfa til sáttanefndar um þau mál sem komið hafa upp og sjá til fram að aðalfundi hvernig úr rætist.  Friðrik Þór, sá ágæti maður, hefur talað mjög fyrir því. 

Aðrir, svo sem stjórnartríóið, vilja meina að það hafi gerst mjög alvarlegir hlutir síðan sáttanefnd var sett á laggirnar.  Til að mynda hafa ýmsir lykilmenn sagt sig úr stjórn og hreyfingunni, svo ekki sé mynnst á tölvupóstmálið.  Því sé ljóst að sáttarnefnd muni ekki hafa erindi sem erfiði og hreyfingin sé því að liðast í sundur núna og því þurfi að bregðast við strax.  Ég er sammála þeim hópi. 

Sumir hafa talað um að Borgarahreyfingin sé þegar dauð.  Ég vona að svo sé ekki en ég óttast að hún komi ekki til með að lifa fram að aðalfundi nema eitthvað mikið og róttækt gerist til að endurheimta trúverðugleika og lægja öldur.  Hugsanlega geta þau öll þrjú verið á þingi áfram út kjörtímabil en hreyfingin sem slík væri hvorki fugl né fiskur býst ég við.  Og þá væri, líkt og Siggi Hr. benti á, búið að stela þingsætunum af hreyfingunni. 

 

Smá viðbót.  Það á við mig eins og fleiri í Borgarahreyfingunni að tölvumál eru ekki mín sterkasta hlið.  Ég sé hér að hluti textans hefur fengið gráan bakgrunn og ég kann ekki að laga það.  Sú málsgrein átti þó ekkert endilega að fanga athygli Billa umfram aðrar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband