5.9.2009 | 08:20
Örfáir einskaklingar?
Nú nýlega hafa sett inn athugasemdir á blogg hjá mér þingmaðurinn Þór Saari og núverandi formaður Borgarahreyfingarinnar Baldvin Jónsson. Þeir héldu því báðir fram að vandamálið í Borgarahreyfingunni væri óánægja örfárra einstaklinga. Mér skildist á Þór að hann teldi best að þeir færu bara.
Skoðum þessa fullyrðingu aðeins. Getur það verið að þetta snúist um óánægju örfárra einstaklinga?
- Á ágætlega sóttum félagsfundi í byrjun ágúst var borin upp tillaga um traustyfirlýsingu á þinghóp. Sú tillaga var kolfelld.
- Vegna óánægju með þinghóp hefur svo stór hluti réttkjörinnar stjórnar sagt af sér að varamenn duga ekki til að fylla í þau sæti.
- Vegna tölvupósts Margrétar um meinta heilabilun Þráins Bertelssonar lögðu þrír stjórnarmenn það til að Margrét segði af sér.
- Fylgi hreyfingarinnar hefur á tveimur mánuðum fallið úr 9% niður í 5,6%, samkvæmt skoðanakönnun Gallup.
Er hægt að vera fjær kjósendum sínum en þetta að tala um óánægju örfárra manna í þessu sambandi?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég hef ekki séð hvað Þór skrifar hjá þér, en get svarað hér fyrir mig Jón Kr. Reyndar ágætt að byrja á því að taka fram að ég er ekki "núverandi formaður" vegna þess að ég hafi verið að berjast fyrir metorðum í þá áttina. Ég er núverandi formaður vegna þess að formaður og varaformaður sögðu bæði af sér.
En að fullyrðingum þínum hér að ofan:
"Ágætlega sóttur félagsfundur, sem ég sat meðal annarra, var tæplega 20 manns. Ertu ekki að hlaða allverulega í "ágætlega" hérna Jón?
Vegna persónulegs bréf Margrétar til vinkonu sinnar, sem barst stjórn FYRIR MISTÖK og þar strax á eftir afsökunarbeiðni og beiðni um trúnað þar sem að þetta hefði verið einkabréf, lögðu 3 stjórnarmenn fram vantraust á Margréti. 4 stjórnarmenn hins vegar gerðu það ekki! Meirihluti stjórnar var ósammála því að þetta mál kæmi stjórn við, samt tók minnihluti stjórnar sig til og sendi frá sér yfirlýsingu. Líklega einungis til þess að svala eigin egóum.
Ástæða þess að ég er að hrekja þetta hér Jón er ekki gremja gagnvart hér. Ástæða þess er fyrst og fremst sú, að örfáir einstaklingar (eins og þú nefnir hér í titlinum) vilja ítrekað meina að þeir geti talað fyrir grasrót hreyfingarinnar. Hvernig geta 20 manns tekið sér það vald að tala fyrir 14.000 kjósendur Borgarahreyfingarinnar?
Það er mér með öllu óskiljanlegt.
Baldvin Jónsson, 5.9.2009 kl. 11:28
Baldvin. Þú ert formaður og hefur staðið þig ágætlega sem slíkur.
Eitthvað bregst þér minnið með þennan fund í ágúst byrjun.. Þarna voru 37 á fundinum. Það verður bara að teljast nokkuð gott. Stend allavega við það að það var ágætlega sóttur fundur.
Þú segir að þrír stjórnarmenn hafi lagt fram vantraust en fjórir hafi ekki gert það. Er ekki ein þessara fjögurra Margrét sjálf og Þór Saari einnig í þeim hópi?
Ég hef ekki orðið var við að örfáir einstaklingar telji sig geta talað fyrir grasrót. En ég hef orðið var við mikla óánægju innan Borgarahreyfingarinnar. Ég trúi því varla Baldvin að þú hafir ekki orðið var við það.
Jón Kristófer Arnarson, 5.9.2009 kl. 11:52
Ég get ekki sagt Jón að það hafi reynt á mig sem formann hreyfingarinnar og því erfitt að meta það starf. Er reyndar á því að þannig ætti það að vera, að formaður sé enginn sérstakur valdhafi neins. Það eina sem hefur reynt á mig að mínu mati, er að rembast eins og rjúpan við staurinn að sjatla mál og að hafa þessa opinberu umræðu rökræna. Það markmið hefur ekki gengið vel að mínu mati.
Ég hef að sjálfsögðu orðið var við óánægju innan hreyfingarinnar. Óánægjan er hins vegar ekki bara öðrum hópinum um að kenna eins og fjölmargir vilja halda fram. Fyrir mér er stærsta ástæða óánægjunnar algert vanhæfi stjórnar til að takast á við málið af yfirvegun og á rökrænan máta. Persónulegar tilfinningar og skoðanir stjórnarmanna hafa alfarið skyggt mörgum sýn í málinu og aðgerðir þeirra hafa ekkert gert annað en að skaða hreyfinguna enn meira í hvert sinn.
Góð stjórn hefði tekið á málinu, komist að samkomulagi og staðið við það. Þessi stjórn, sem nú hefur að stórum hluta sagt af sér, gerði það ekki. Þvert á móti að þá samþykkti hún hluti, snéri sér svo við og fór sem einstaklingar strax þvert gegn því sem samkomulag hafði myndast um. Finnst þér skrítið að það sé á ferðinni vantraust?
Mín trú er sú að það fólk sem þegar hefur sýnt fram á slíkt gríðarlegt vanhæfi, ætti að sjálfsögðu að sjá sóma sinn í því að bjóða sig ekki fram til stjórnar.
Af þeim sem þegar hafa tilkynnt um framboð eru fjölmargir sem hafa verið mitt í hringiðu úlfúðarinnar hingað til. Finnst þér líklegt að það skili árangri að hafa þau í trúnaðarstörfum áfram?
Ég sé ekki hvernig örlítið endurnýjað vín í gömlum belgjum á að vera hæft til að færa fram eitthvað nýtt.
Mín eina von núna fyrir framtíð hreyfingarinnar er að á landsfundinum muni takast að skapa kröftugt, einfalt og gott skipulag fyrir framtíðarstarf hreyfingarinnar. Ég velti fyrir mér til hvers þurfi stóra stjórn þar og hvert hlutverk hennar ætti að vera?
Ég er sammála því að lýðræðið er einungis tryggt með skýru skipulagi. Það getur hins vegar aldrei náð út fyrir hreyfinguna. Það sem að ég hef ítrekað bent á, er að sama hvað við (meirihluti hreyfingarinnar í atkvæði þar um) viljum, eru þingmennirnir engu að síður einungis bundnir af eigin sannfæringu og varin til þess af Stjórnarskrá Íslands.
Eina leiðin til þess að skapa hreyfingunni einhvern tilgang er að hlúa að kraftmiklu grasrótarstarfi. Það getum við væntanlega öll verið sammála um að minnsta kosti.
Baldvin Jónsson, 5.9.2009 kl. 12:11
Ég hlýt að taka gagnrýni núverandi formanns stjórnar til mín þar sem að ég er sá einn af þeim sem sagði mig úr stjórn BH og reyndar sá fyrsti. Baldvin segir að við höfum ekki getað tekist "á við málin af yfirvegun og á rökrænan máta". Má ég spyrja þig hvort að það flokkist sem yfirveguð og rökræn ákvarðanataka að þínu mati að vilja kasta hlutkesti til að greiða oddaatkvæði um það hvort að fresta ætti landsfundinum? Finnst þér að allir stjórnarmeðlimir ættu að temja sér slík vinnubrögð til að stuða örugglega engan? Er það ef til vill sú leið sem þú vilt sjá í sölum Alþingis? Og talandi um "gríðarlegt vanhæfi", gætir þú verið svo góður að útskýra mál þitt örlítið betur? Er það eitthvað sem á við um mig undirritaðan að þínu mati?
Sigurður Hrellir, 5.9.2009 kl. 14:12
vel sóttur fundur ! 37 manns ! hvaða heimi átt þú heima í ? básúnar undarlegar "flokkshugsanir" þínar og þáttakandi í bandalagi þar sem fleiri "meiga koma" ! bara ef þeir SKRIFA UNDIR ! LÝRÆÐI þú hefur bara ekki minnstu hugmynd um það fyrirbæri !
Og mikið má vanta í fólk sem túlkar bréf Margrétar sem árás ! og slatta í þá sem ekki bera meiri virðingu fyrir einkabréfum og einkalífi Þráinns en var gert !
þótt ég hefði ekki kosið hreyfinguna ef ég í rvik norður væri ! en það er vegna þess að enga trúna hef ég á Þráinn sem þingmanni ! of "fastheldinn" til að eiga möguleika í heimi málamiðlanna !
og siggi finnst þér yfirveguð og rökrétt aðferð að senda út tilkynninngu í nafni stjórnar gegn Margréti ? þegar 3 aðilar álikta ! er það ekki það sama og gagnrýnt var forðum ?
Grétar Eir (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 14:59
Grétar. Mér finnst það ágæt mæting á fund hjá Borgarahreyfingunni á miðju sumri að það mæti um 40 manns. Held að mörg stærri stjórnmálasamtök gætu verið full sæmd af því. En auðvitað mætti það vera enn betra. Held samt að til þess að svo megi verða þá þurfi að efla innra starfið.
Jón Kristófer Arnarson, 5.9.2009 kl. 15:22
Ég held að Baldvin ofmeti verulega þátt stjórnar í óánægju og fylgistapi hreyfingarinnar. Kannski gerir hann það einmitt vegna þess að hann tengist stjórn of mikið?
Mér finnst allavega einkennilegt hvernig hann skautar hvað eftir annað framhjá þeirri staðreynd að þinghópurinn eru þeir aðilar sem hafa verið mest í fjölmiðlum. Heldur Baldvin að samstarfserfiðleikar og að lokum klofningur þessa litla þinghóps hafi engin áhrif á fylgistap í könnunum?
Ásthildur Jónsdóttir, 5.9.2009 kl. 16:02
Það er ótrúlegt hvað allt þetta pex leiðir umræðuna út um víðan völl án þess að neitt viti borið komi út úr því.
1. varðandi fundarsókn þá er 37 ágætlega sóttur fundur sé tekið mið af almennum félagsfundi hreyfingarinnar.
2. varðandi ályktun gegn Margréti þá samþykktu 4. stjórnarmenn að senda ályktun þar sem gjörðir Margrétar væru fordæmdar. Fundurinn var löglega boðaður og á hann mættu 5 stjórnarmenn. Á fundinn vantaði aðeins Þór Saari, Margréti Tryggvadóttur og Baldvin Jónsson.
3. Baldvin segir að orsök missættis sé að stjórnarmenn hafi sem einstaklingar farið gegn því sem stjórnin samþykkti. ÞAð er ekki rétt. Stjórnin hefði vissulega mátt vera skilvirkari en meginorsök missættis er að þingmenn hreyfingarinnar hafa gengið gegn bæði samþykktum hreyfingarinnar sem og ákvörðunum aukaaðalfundar og þ.a.l. ákvarðana sem stjórn tók í umboði aukaaðalfundar.
4. Fylgistap hreyfingarinnar verður að skrifast á þinghópinn þau taka ákvarðanirnar sem hafa áhrif á þjóðina og þau taka ákvarðanirnar sem fylgis- og félagsmenn meta hreyfinguna út frá.
5. missætti og trúnaðarbrestur sem varð vegna vanhugsaðra aðgerða þinghóps hafa síðan orðið til þess að Borgarahreyfingin er ekki trúverðug rödd á alþingi og mun aldrei fá sæti í fagnefndum þeim sem fjalla eiga um samninginn við ESB.
Ég ætla ekki að elta ólar við allar þær rangfærslur sem ég verð vitni að á blogginu, hjá þröngum hópi innan Borgarahreyfingarinnar, enda hef ég þá trú að hinn almenni félagsmaður dæmi árangur eftir aðgerðum og aðgerðir eftir trúverðugleika þeirra.
Ég mun því áfram láta aðgerðir tala og hlusta eftir réttsýnni rödd félagsmanna um þær aðgerðir sem ráðist er í.
Guðmundur Andri Skúlason, 5.9.2009 kl. 17:24
Gott innlegg Baldvin!
Skiptir engu hvort félagsfundur var 20 eða 50. Ennþá langur vegur frá 14000! Eða hvort stjórn samþykkti vantraust með meirihluta eða minnihluta. Það eitt að það skildi fara inn á borð stjórnar með þessu móti er skammarlegt. Margrét gerði ekkert af sér - fólk er bara of einbeitt í riflildi og látum, illindum og valdabaráttu til að greina rétt frá röngu. Sá sem les og sér illan ásetning hlýtur að hafa illan ásetning í eigin huga. Hugarfóstur lesanda og ekkert annað. Sumir sáu fordóma aðrir sáu ásetning en flestir sáu ekkert nema bréf sem lýsti áhyggjum og innihélt fyrirspurn. En þeir sem höfðu hæst báru málið á torg - og skrýtið að hreyfingin tapi fylgi! Hún virðist lítið hafa gert undanfarið annað en að ganga af göflunum. Með stjórn í broddi fylkingar! Þannig sjá utanaðkomandi kjósendur það að mínu mati.
Þinghópurinn var hins vegar á kafi í vinnu og hefði ekki haft tíma til að taka þátt í þessari vitleysu hefði honum dottið það til hugar. Þau komu vel fram í þingsal - í beinni!
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 5.9.2009 kl. 20:48
Lísa, þessi félagsfundur var haldinn áður en Margrétar málið var.
Jón Kristófer Arnarson, 5.9.2009 kl. 20:57
Hó hó hó - er ekki grunnskilyrði fyrir stjórnarsetu að fólk skilji ritað mál?
Félagsfundur = Traustyfirlýsing. Skiptir ekki máli hvað voru margir mættir.
Stjórnarfundur = Margrétarmálið. Fáránlegt að leggja það fram yfir höfuð.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 5.9.2009 kl. 21:12
Það fer nú eftir því hver skrifar og hversu oft á einum degi maður hefur gefist upp á að reyna skilja viðkomandi.
Jón Kristófer Arnarson, 5.9.2009 kl. 21:22
Ætlar hreyfngin að halda áfram,
eða verður umræðan enn á þessum sumar-fortíðarnótum?
Guðríður Adda Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 21:47
Við reynum að læra af reynslunni og horfa til framtíðar Guðríður.
Jón Kristófer Arnarson, 5.9.2009 kl. 21:57
Annars er það að frétta af Þriðja Arminum að hann ætlar að halda herráðsþing við gervi-goshverinn Strók í Öskjuhlíðinni milli kl. 12 og 16 á morgun, sunnudag. Nema það verði sunnan-átt.
Friðrik Þór Guðmundsson, 5.9.2009 kl. 23:08
Hún er slæm þessi misskipting auðsins og gæfunnar hér á þessum kreppu tímum.
Meðan þriðji maðurinn hangir í útsynningi uppi á Öskjuhlíð og reynir að verja sig fyrir skúrunum og frussinu úr gervihver, þá hringsnúast aðrir í vellystingum uppi í Perlunni og horfa fyrir höfuðborgina. Kjamsandi á nautalundum og humri og sötrandi franskt rauðvín.
Og á hálftíma fresti þá sjá þeir hvar þriðji maðurinn ornar sér við gufuna úr hvernum, sem rétt í þessu hafði gegnbleytt hjá honum derhúfuna.
Jón Kristófer Arnarson, 5.9.2009 kl. 23:17
Segir varaþingmaður SUNNlendinga. Ertu þá út(i)synningur, Jón?
Nei, Jón, það er smávegis agnúi á þinni annars flottu bróderíngu. Gervi-hverinn er fyrir sunnan Perluna. Ef það verður sunnan-átt þá gýs gervi-hverinn ekki.
Annað; það ornar sér enginn við hver (gervi eða ekki). Vatnið sem kemur upp er 125 gráðu heitt og það er of mikið til að flokkast undir ornun, að standa við slíkan hita. Og gufan gegnbleytir ekki derhúfu upplýsts manns, sem kann að stíga tvö, þrjú skref til hliðar, frá þeirri slóð sem gufan fer.
Enn eitt; veitingastaðurinn hringsólandi er mér vitanlega ekki opinn á þessum tíma. Kaffihúsið á fjórðu hæðinni er hins vegar opið. Þar fást ekki nautalundir, en ágætis flatbrauð með hangiketi.
Friðrik Þór Guðmundsson, 5.9.2009 kl. 23:33
Nú jæja, þá lítur þetta nú allt heldur skár út. Enda gott hangiket ekki síðra en nautalundir og almennilegar flatkökur gefa besta humri lítið eftir.
Jón Kristófer Arnarson, 5.9.2009 kl. 23:38
Sigurður, ég vil ekki fara um og nafngreina fólk en ég hef aldrei lýst yfir vantrausti á þig. Það sem Sigurður er að nefna hér varðandi mögulegt hlutkesti, er frá síðasta stjórnarfundi þar sem verið var að ræða það hvort að fresta ætti landsfundinum um viku eða ekki, vegna vafa um hvort að boðun hans á aðeins heimasíðu hreyfingarinnar gæti talist lögleg. Ég hafði persónulega leitað til nokkurra lögmanna um málið og fengið svör sem voru á þá vegu að í einu tilfelli var mér sterklega ráðlagt að fresta fundinum og í hinum tilfellunum að það þyrfti ólíklega ef að meirihluti mættra á landsfundinum samþykkti fundinn löglega boðaðan.
Afstaða mín var því sú að mér fannst í raun skipta litlu máli hvort að við frestuðum honum eða ekki, það eina sem stóð gegn því að fresta honum var að stjórnin liti þá enn verr út út af þessu klúðri við fundarboðunina. Það réð á endanum minni afstöðu um að fresta honum ekki. Þangað til að þarna var komið voru af 7 stjórnarmönnum, 3 með frestun og 3 á móti og ég hlutlaus og þess vegna var ég jafnvel að hugsa um að kasta upp á það. Mér finnst það alls ekki óeðlilegt Sigurður þegar að um er að ræða mál þar sem að atkvæði einhvers, sem hefur ekki myndað sér afstöðu, er oddaatkvæði.
Ásthildur, ég hef hvergi lýst því yfir að samskipta örðugleikar þinghópsins hafi ekki haft áhrif á fylgi hreyfingarinnar og trúverðugleika. Ég hef hins vegar haldið því fram að ég teli hegðun stjórnar hafa haft meira um það að segja. Þegar að óánægjan hófst og stjórnarfólk fór að gefa út yfirlýsingar, fékk það fólk mikinn tíma í fjölmiðlum. Þingmenn hafa alls ekki fengið mikinn tíma á þeim vettvangi vegna þessara mála - fjölmiðlarnir vilja mikið frekar tala við þá sem eru að kasta sprengjum.
Ég tengist stjórn að sjálfsögðu mikið, hef átt sæti í henni allan þennan baráttu tíma, og hef því mikla yfirsýn yfir hvað er búið að ganga á. Ég varði þinghópinn hvergi í ESB málinu, eins og ég og Jón Kr. höfum skrifast á um víða vorum við Jón að mestu sammála í því máli.
Ástæða þess að ég er að gagnrýna störf stjórnar, er að hvaða almannatengill sem er getur sagt þér að slíkar ítrekaðar yfirlýsingar stjórnarmanna með mjög alvarlegar vantraustyfirlýsingar á þingmenn, hafa að sjálfsögðu gríðarleg áhrif á trúverðugleika hreyfingarinnar. Við komum alls staðar fyrir sem verulega sundraður hópur og þar með ólíkleg til árangurs nokkursstaðar.
Gandri: biðst velvirðingar en get ekki séð á fundargerð stjórnarfundar frá 14. ágúst að tillagan hafi verið samþykkt með 4 atkvæðum. Hún var það greinilega fyrst, en síðan kom fram frávísunartillaga þar sem að 2 greiddu atkvæði með frávísun og 3 á móti. Geri fastlega ráð fyrir að þau þrjú hafi verið þið sem síðan senduð frá ykkur yfirlýsinguna. Missætti innan stjórnar var vissulega til staðar. Óánægja með klaufalegar yfirlýsingar Herberts í fjölmiðlum þar sem að hann bar því við að orð hans hefðu - í hvert sinn - verið dreginn úr samhengi. Lilja Skaftadóttir hefur síðan opinberlega gefið yfirlýsingar, þvert á samþykkt stjórnar. Bæði eftir sáttafund með þinghópnum sem og í Þráins málinu, þar sem að hún braut trúnað einkabréfs sem að henni barst óvart.
Það er stórkostleg vanhæfni til þess að horfa í eigin barm að ætla þinghópnum alla sök á fylgistapinu, stórkostleg vanhæfni.
Varðandi síðan 5. lið hjá þér, þá ertu þar að vitna í samtal sem að eitt okkar átti við einhvern einn aðila innan Samfylkingarinnar og gaf sá aðili út þessa yfirlýsingu. Er það trúverðugur uppruni upplýsinga? Þinghópurinn okkar hefur átt afar gott samstarf við fjölda þingmanna inni á Alþingi. Ég hef fulla trú á að það muni halda áfram.
Baldvin Jónsson, 6.9.2009 kl. 14:45
A gerir alvarleg mistök. B gagnrýnir mistökin. Sem þýðir þá að B er sökudólgurinn ef ég skil þig rétt Baldvin?
Trúverðugleiki hreyfingarinnar hafi ekki skaðast vegna mistaka þinghópsins og samskiptaleysi við stjórn, varaþingmenn og félagafundi, nei trúverðugleikinn tapaðist vegna þess að þinghópurinn var réttilega gagnrýndur fyrir vinnubrögðin. En hvar er þá opna umræðan sem boðuð var?
Jón Kristófer Arnarson, 6.9.2009 kl. 15:44
A gerir mistök. Það er rætt og B gagnrýnir réttilega. A og B ná sáttum og ákveða hvernig sé best að halda áfram, en B snýr sér strax við og þver þvert á samkomulagið. Það gerist nokkrum sinnum og sáttavilji milli A og B er horfin. Skipuð er sérstök sáttanefnd til þess að leysa samskipta vanda A og B og hefur hún því miður ekki erindi sem erfiði, eða ekki nema að hluta til.
Þið viljið endilega að ég lýsi því yfir að sökin sé bara annars aðila að málum, það hef ég hvergi gert og mun ekki gera.
A OG B eiga báðir sök. Um leið og aðilar máls geta farið að gangast við því skapast strax sáttagrunnur innan hreyfingarinnar. Væri það ekki falleg mynd?
Baldvin Jónsson, 6.9.2009 kl. 15:50
Baddi, ég var argur út í þig í gær fyrir að tala um gríðarlegt vanhæfi án þess að útskýra það að neinu marki og þannig að setja mörg okkar undir þann hatt. Mér fannst þú einfaldlega vera að kasta steinum úr glerhúsi þó svo að ég ætli alls ekki að ásaka þig persónulega um vanhæfi eða getuleysi.
Fyrir mér var (og er) vandamál stjórnar BH að hluta til skortur á ramma og vel skilgreindu hlutverki og líka það að stjórnin var oft og iðulega innbyrðis ósammála. Vissulega er það meirihlutinn sem ræður í lýðræðislega kjörinni stjórn en oftast betra ef fólk getur talað sig saman að sameiginlegri niðurstöðu án þess að þynna of mikið út skoðanir sínar.
Stjórnin er kosin af félagsmönnum og er ætlað að sjá um ýmis mál fyrir þeirra hönd. Að mínu mati eiga félagsmenn fullan rétt á því að fá greinagóðar upplýsingar um starf stjórnarinnar og þess vegna er ég ósammála því að fara í felur með ágreiningsefni. Vissulega getur hlotist af því illt umtal, sérstaklega þegar fjölmiðlar fá brennandi áhuga á missætti milli manna og taka hlutina úr samhengi en það er einfaldlega það sem það kostar. Er það ekki þess virði samt?
Sigurður Hrellir, 6.9.2009 kl. 16:00
Siggi, við erum sammála um að fela ekki ágreiningsefnin. Mér finnst hins vegar mikill munur á því að takast á um þau á félagsfundum í beinskeyttum samskiptum, eða á því að birta yfirlýsingar í fjölmiðlum. Það hefur enda ekki verið neitt leyndarmál að það hafa ríkt samskiptaörðugleikar innan hreyfingarinnar. Ég hef einmitt gagnrýnt það oft, að stór hluti vandans sé að í upphafi ágreiningsins sem kom upp fljótlega eftir kosningar, var reynt af fáum aðilum að leysa þann ágreining í litlum sérvöldum hópi fólks, í stað þess að hafa málið uppi á borðinu og fjalla um það á opnum félagsfundi. Með því var verið að láta ör-hóp stýra hreyfingunni og að ætla grasrótinni sömu skoðanir. Mun heilbrigðara hefði verið að halda opinn fund og fá þar fram skoðun sem flestra.
Ég held Siggi að við séum sammála um flest þau mál sem við höfum rætt. Það hefur að minnsta kosti verið mín reynsla.
Ég held þó að ég hafi hvergi kastað grjóti úr glerhúsi, ég hef hvergi haldið því fram að ég sé ekki hluti þessarar vanhæfu stjórnar. Mér hefur ekki tekist þar, frekar en öðrum, að leysa þetta stærsta vandamál hreyfingarinnar í augnablikinu.
Baldvin Jónsson, 6.9.2009 kl. 16:12
Baldvin. Ég get að mestu verið sammála þér um að eðlilegt hefði verið að ræða þetta innan hreyfingarinnar. En þá ber þó að hafa í huga að þegar þessi ágreiningsefni komu upp þá vakti það athygli að þingmenn mættu ekki á félagsfundi og stjórnarfundi.
Ég mætti á þinghópsfund og hafði ekki málfrelsi. Á þeim fundi var óskað eftir því að þinghópur ræddi IceSave mál við hreyfinguna en því var hafnað. Síðar var svo haldinn IceSave fundur og þar mætti enginn þingmaður.
Þinghópurinn handpikkaði fólk sem það vildi ræða við. Inga átti að fá sæti á þinghópsfundum, sat einn og var síðan ekki æskileg.
Ég setti inn sakleysislega athugasemd eða gagnrýni á blogg Birgittu og það var tekið sem dæmi um að verið væri að spilla innan hreyfingarinnar.
Eftir Margrétar málið og hávaðan kringum það þá hefur enginn félagsfundur verið haldinn um málefni hreyfingarinnar.
Á hvaða vettvangi átti að ræða þetta?
Jón Kristófer Arnarson, 6.9.2009 kl. 17:17
Smá leiðrétting Jón. Ég sat alls 4 þingflokksfundi
Ingifríður Ragna Skúladóttir, 6.9.2009 kl. 17:35
Jæja fjóra þá :). Ég hef allavega aldrei verið boðaður á þingflokksfund, fékk að sitja einn með því skilyrði að ég mætti ekki tala og fékk ekki pappíra um þau mál sem voru til umræðu.
Þegar Birgitta gagnrýndi mig fyrir að koma með athugasemd á bloggið hafði ég umsvifalaust samband og sagðist vilja hitta þinghópinn hvenær sem þeim hentaði en með því skilyrði að ég hefði málfrelsi. Hef aldrei fengið slíkt boð.
Jón Kristófer Arnarson, 6.9.2009 kl. 17:52
Er ekki rétt skilið hjá mér að ákveðinn trúnaður sé um málefni innan Alþingis sem þingflokkur er bundinn af? Mér skilst það allavega. Hversu lýðræðislegt sem skipulagið er má þó aldrei brjóta trúnað. Það gæti haft áhrif á hverjir sitja þingflokksfundi. Mér gæti skjátlast en ég held að þetta sé svona.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 6.9.2009 kl. 22:21
Lísa, ef þú færð að sitja þingflokksfund, eins og Jón gerði, þá hlýtur viðkomandi að hafa málfrelsi og rétt til að sjá þau gögn sem fjallað er um, annars er tilgangslaust að vera á staðnum. Auk þess hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir varaþingmenn að vera vel inni í málunum ef þeir eru kallaðir til starfa.
Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 22:31
Lísa. Ég hef boðið þinghópnum að hitta mig ef og þegar þau vilja en bara þannig að ég hafi málfrelsi. Það boð stendur enn og meira en það, ég tel það skildu mína að starfa með þeim að heilindum og í sátt óski þau þess.
Vel má vera að einhver trúnaðarmál séu rædd á þinghópsfundum. Þekki það ekki. Hitt veit ég þó að í stjórnmálaflokkum tíðkast það nokkuð að varaþingmenn sitji fundi þingflokka. Vel má vera að það sé óæskilegt í þinghópum þar sem samstarf og samráð gæti verið túlkað sem brot á stjórnarskrá eða óeðlileg afskipti af samvisku þingmanna.
Jón Kristófer Arnarson, 6.9.2009 kl. 23:55
Má til að koma því hér að vegna umræðu um Icesave fundinn sem að enginn þingmanna komst á, að sá fundur var haldinn að tillögu Birgittu Jónsdóttur þingmanns. Henni fannst tilvalið að fá þangað fulltrúa frá InDefence hópnum til þess að gefa grasrótinni upplýsingar um það skelfilega mál.
Mér var líka tjáð að varaþingmenn væru velkomnir á alla þingflokksfundi. Spurði ekki út í þetta með hvort að við værum þá áheyrnarfulltrúar, eins og þingmenn eru á stjórnarfundum, eða ekki.
En góða nótt baráttusystkin - stöndum saman að því að halda góðan og lýðræðislegan landsfund.
Baldvin Jónsson, 7.9.2009 kl. 00:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.