Skjaldborgir og Borgarahreyfingin.

Ég hitti ágæta vinkonu úr VG núna um helgina.  Sagði henni að ég ætlaði að kjósa Borgarahreyfinguna.  Jæja, sagði hún, hvað hefur ríkisstjórnin gert nú?  Svarið var auðvitað augljóst.  Ekkert!

 Nýja ríkisstjórnin.

Vissulega var ég einn af þeim sem fagnaði þegar síðasta ríkisstjórn fór frá völdum og sú nýja tók við með það sem megin markmið að slá skjaldborg um heimili og fyrirtæki, eins og það var orðað.  Því miður hefur lítið orðið efndum og í stað þess að grípa til aðgerða sem einhverju máli skipta þá hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar kallað þá fífl og kjána sem eitthvað hafa reynt að koma fram með hugmyndir til bjargar heimilum í landinu.

 

Auðvitað er það svo að þessar hugmyndir sem fram hafa komið eru mis raunhæfar og misjafnlega sanngjarnar.  En það er hreinn og beinn dónaskapur að vísa þessu frá sem einhverju rugli eða óþarfa.  Miklu frekar hefði ríkisstjórnin átt að taka þessum hugmyndum fagnandi og vinna út frá þeim aðgerðir sem gætu staðið undir nafni sem skjaldborg um heimilin.   Þess í stað afgreiðir ríkisstjórnin og forsvarsmenn hennar fram komnar tillögur með hroka og stærilæti.  Nú síðast forsætisráðherra úr ræðustóli á landsfundi Samfylkingar.

 

Ekki var síður athyglisvert að sjá hvernig okkar ágæti fjármálaráðherra réðst að krafti gegn hugmyndum um niðurfærslu lána þegar þær komu frá pólitískum andstæðingum. Lét þó hjá líða að svara slíkum hugmyndum þegar þær komu frá hagfræðingi og frambjóðanda úr eigin flokki.  Það þrátt fyrir að tillögur Lilju Mósesdóttur væru heldur dýrari en aðrar tillögur ef eitthvað er og síst sanngjarnari.

 

Oftar en ekki hafa þessar hugmyndir um niðurfærslu lána verið slegnar út af borðinu vegna þess að þær kosti þjóðfélagið of mikið.  En þeirri spurningu er þá ósvarað hvað það muni kosta að fara ekki þessa leið?  Hverjar verða afskriftir lána ef heimilin lenda umvörpum í gjaldþrotum?  Verða það lægri tölur en þær sem afskriftir sem verða ef vísitalan verður færð niður í það sem hún var í ársbyrjun 2008 líkt og Borgarahreyfingin leggur til?  Ég efast stórlega um það og er þá ótalinn allur sá kostnaður og hörmungar sem það mun leiða yfir íslenskt þjóðfélag að hér verði stór hluti heimila gjaldþrota og eignalaus og sjái ekki fram úr skuldum næstu árin eða áratugina.

  Vandi heimilanna 

Grunn ástæðan fyrir vanda heimilanna er sú að lánin hafa hækkað langt umfram kaupmátt launa og langt umfram þær forsendur sem lántakendum voru gefnar þegar þeir tóku lánin.  Gengið hefur fallið og ekki síst vegna aðgerða bankanna sjálfra og fyrrum eigenda þeirra, ásamt andvaraleysi stjórnvalda.  Við það bætist vísitalan er í raun að mæla verðhækkanir út frá þeirri forsendum að neyslan sé með svipuðum hætti og var árið 2007, þegar hér ríkti þensla og verð á innfluttum vörum var helmingi lægra en nú er.  Eðlilega hefur dregið úr neyslu á innfluttum vörum með lækkandi gengi krónunnar.  Engu að síður eru hækkanir á þessum vörum reiknaðar að fullu inn í vísitöluna sem svo aftur eykur enn á greiðsluvanda heimilanna.  Það er engin sanngirni í því.

 

Hugmyndir um einhverskonar leiðréttingu á vísitöluhækkun síðustu mánaða eru því ekki aðeins sanngjarnar heldur um leið í raun eina færa leiðin ef slá á skjaldborg um skuldug heimili.  Þess vegna get ég tekið undir tillögur Borgarahreyfingarinnar í þessum efnum, eða að minnsta kostið litið á þær sem einhverskonar grunn að raunverulegum lausnum.  Því ætla ég að kjósa Borgarahreyfinguna núna í komandi kosningum.  Ég nenni ekki að fylgjast með næstu kosningum sem einhverri úrslitaviðureign gamla fjórflokkakerfisins þar sem allt sem kemur frá réttum flokki er algott og allt alvont það sem andstæðingarnir segja. 

 

Ég vil að farið verði í raunverulegar aðgerðir til að bjarga heimilum og fyrirtækjum í þessu landi. 

Ég vil að þjóðin eigi fulltrúa á þingi. 

Fulltrúa sem koma fram með tillögur sem virka fyrir fólkið í landinu.

Fulltrúa sem leggja sitt lóð á vogaskálar til að vinna góðum tillögum brautargengi, sama úr hvaða átt þær kunna að koma. 

Fulltrúa sem líta á það sem sitt hlutverk að vinna fyrir fólkið í landinu en líta ekki á stjórnmál sem kappleik fjögurra flokka þar sem markmiðið er að koma sinni ár sem best fyrir borð.

 

X-O


Þolinmóð þjóð Íslendingar

Í raun er ótrúlegt að þessir skúrkar sem einu nafni eru kallaðir útrásarvíkingar er hér enn í fyrirtækjarekstri og geta jafnvel gengið óáreittir um götur bæjarins.  Við getum verið þolinmóð þjóð Íslendingar sem er auðvitað ágætt. 

En Atli var flottur í Silfrinu.


mbl.is Útrásarvíkingana á válista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vildi sennilega vel

Sennilega vildi Valgerður vel þó hún væri í spilltum flokki. Ég hugsa að það sé einnig rétt að hún hafi viljað vel þegar hún átti þátt að máli í hinni misheppnuðu Kárahnjúkavirkjun. En ekki veit ég að hvaða hvötum hún er enn að reyna að telja sjálfri sér og öðrum trú um að sú framkvæmd hafi verið til góðs, þvert á staðreyndir sem blasa við.
mbl.is Valgerður ekki í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalveiðar

Í þessu hvalveiði máli togast á mismunandi hagsmunir. Annars vegar þeir hagsmunir að veiðarnar sjálfar og vinnslan skapar atvinnu og ef hægt er að selja kjötið, þá dálitlar útflutningstekjur. Hins vegar þeir hagsmunir að veiðarnar hafi neikvæð áhrif á ímynd landsins. Nú er það svo að hvalastofnar eru ekki staðbundnir heldur eru þetta flökkustofnar það er þeir færa sig úr einni lögsögu yfir í aðra. Nýting slíkra stofna getur því varla verið einkamál Íslendinga. Nú þegar rætt er um hugsanlega Evrópusambandsaðild þá höfum við mestar áhyggjur (réttilega) að eftir inngöngu komum við ekki nægilega að ákvarðanatöku um nýtingu okkar fiskistofna stofna. Veikir það ekki samningsaðstöðu okkar ef við sjálf tökum upp einhliða veiðiheimildir á hvalastofnum sem aðrar þjóðir vilja ekki veiða þegar þeir berast inn í þeirrar lögsögu? Er ekki augljós mótsögn í stefnu okkar Íslendinga ef einn sjávarútvegsráðherra í einu landi getur tekið ákvörðun um nýtingu stofns sem aðrar þjóðir hafa óumdeilanlegan rétt á að nýta eða eftir atvikum friða? Þegar við tökum ákvörðun um hvalveiðar þá getum við ekki gert það í trássi við aðra innanlandshagsmuni. Við verðum að hugsa um ferðaþjónustu og einnig hvaða áhrif neikvæð ímynd getur haft á markaðssetningu okkar framleiðslu erlendis. Svona má auðvitað reikna út með einföldum líkönum, það er hver áhrifin mega vera þar til veiðarnar hætta að borga sig. Slíkar pælingar hljóta að þurfa að liggja til grundvallar svona ákvarðanatöku. Ég má svo til með að minnast á tvenn undarleg rök þeirra sem hvað mest tala fyrir hvalveiðum. Hin fyrri eru að við eigum að veiða hvali vegna neikvæðra áhrifa þeirra á fiskistofna. Þessi rök fá ekki staðist. Þær hvalveiðar sem verið er að tala um eiga að miðast við að veiðarnar hafi ekki umtalsverð áhrif á stofnstærð hvalastofna, svokallaðar sjálfbærar veiðar. Til þess að hvalastofninn éti minni fisk þá þarf stofninn hins vegar að minnka. Veiðiráðgjöf Hafró og heimildir fyrrverandi sjávarútvegsráðherra ganga út á að stofninn haldist því sem næst óbreyttur og mun því ekki hafa áhrif á hversu mikið hvalir éta af fiski eða verða í fæðusamkeppni við nytjafiskategundir (skíðishvalir borða sjaldnast fisk skilst mér). Seinni rökin eru hin þjóðernislegu. Það er að við eigum að veiða hvali til að sýna útlendingum að við erum sjálfstæð þjóð sem ekki látum segja okkur fyrir verkum. Svona rök dæma sig auðvitað sjálf. Við viljum taka þátt á samfélagi siðaðra þjóða og svona barnaleg þjóðernishyggja getur í besta falli verið spaugileg. Enda að mestu sprottin undan rifjum hins stórundarlega Frjálslynda flokks sem gjarnan gera út á þjóðernishyggjuna í sinni máttlausu atkvæðaveiðum.
mbl.is Vond stjórnsýsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja ríkisstjórnin og gagnrýni.

Ég hef kosið báða þá flokka sem mynda þessa ríkisstjórn.  Núna í seinni tíð þó verið á bandi VG.  Það er margt sem ég sé að þessi ríkisstjórn er að gera til bóta en auðvitað getur hún ekki gert kraftaverk.  En þessi ríkisstjórn þarf þó aðhald og réttláta gagnrýni rétt eins og öll stjórnvöld allra tíma.

Mér finnst eiginlega hálf pínlegt að sjá hvernig sumt fólk hér á blogginu hefur umturnast.  Ekki síst félagar mínir í VG.  Síðasta ríkisstjórn var alslæm og sú nýja algóð.  Auðvitað er þetta ekki svo.  Kannski er það líka svona afstaða sem hinn almenni kjósandi er þreyttur á?  Kannski er það vegna svona afstöðu sem fólk hefur misst trú á flokkakerfinu?

Ég fagna því að VG skuli vera komin í ríkisstjórn og held að það sé til mikilla bóta.  En mér dettur ekki í hug að þeirra verk verði hafin yfir alla gagnrýni.  Og ekki bara það.  Þessari ríkisstjórn er nauðsynlegt að fá aðhald og gagnrýni til að endurvekja trú fólks á stjórnvöldum.  Þessi ríkisstjórn verður að bragðast vel og án hroka við slíkri gagnrýni og umfram allt að forðast að vekja falsvonir hjá fólki með loforðum sem þau geta ekki staðið við.


Sjálfbær þróun eða enn ein stóriðjustjórn?

Þessi nýja ríkisstjórn er mynduð við afar sérstakar aðstæður og um leið eru miklar vonir bundnar við hana.  Á fréttamannafundi í dag sagði formaður VG að núna væri nýfrjálshyggjan úti og varaformaðurinn bætti svo við að þetta væri ríkisstjórn sem starfaði eftir hugmyndafræði um sjálfbæra þróun.

Hvað er svo þessi hugmyndafræði um sjálfbæra þróun?  Hún gengur út á að okkar kynslóð á að nýta sínar auðlyndir á þann hátt að það skerði sem minnst möguleika komandi kynslóðar.

Nú er það svo að stóriðjustefnan eins og hún hefur verið rekin gengur þvert á þessa hugmyndafræði.

Engin heildarstefna eða heildarsýn hefur verið mótuð um nýtingu og verndun.  

Óljóst er hvort framkvæmdirnar skila einhverjum ávinning fyrir okkar kynslóð og augljóst er að síðustu framkvæmdir gerðu það ekki.  

Nú þegar gjaldeyriskreppa er og háir vextir ásamt verðbólgu sliga landið er þá rétt að taka lán út á virkjanaframkvæmdir sem skapa litla atvinnu og lága arðsemi?  Mun það hafa áhrif á verðbólgu og stýrivexti eins og Kárahnúkavirkjun og hver verður þá nettó ávinningurinn?

Landið sem tapast um alla eilífð er ekki metið inn þegar ákvarðanir eru teknar svo í raun er ekkert verið að hugsa um komandi kynslóðir.

Þá hafa margir bent á að líklega sé verið að ofnota eða rányrkja gufuaflsvirkjanir þannig að endingartími þeirra verði stuttur.

En nú tala formaður og varaformaður VG að þessir tímar séu að baki og nú séu að renna upp tímar sjálfbærar þróunar með nýrri ríkisstjórn.  Ég fagna því innilega.

En, svo les maður verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar.  Þar er lítið talað um náttúruvernd eða nýtingu auðlinda.  Enn minna um sjálfbæra þróun.  Varðandi álver þá stendur eftirfarandi:

Engin ný áform um álver verða á dagskrá ríkisstjórnarinnar.  

Hvað er átt við með þessu?  Af hverju er ekki sagt "engin áform um ný álver", það er ný og áform víxlað?  Það eru uppi áform um álver á Bakka og í Helguvík ásamt stækkun í Straumsvík.  Þó hefur ekki verið sagt með skýrum hætti hvaðan sú orka á að koma.  Þýðir þetta orðalag að allar þær ofboðslegu stóriðjuframkvæmdir sem fyrri ríkisstjórnir höfðu áform um séu enn á borðinu?  Ef svo er, hvernig getur það samræmst hugmyndum um sjálfbæra þróun?    

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta verður túlkað á næstu dögum.  Vonandi eru þetta óþarfa áhyggjur hjá mér að þetta óskíra orðalag tákni áframhaldandi stóriðjustefnu.  En af hverju þarf það þá að vera svona loðið? 


Framsóknarflokkurinn!

Er hið gamla Ísland.
mbl.is Telur forsendur fyrir stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn og konur eiga samúð mína alla

Hugsið ykkur hvað Sjálfstæðisflokkurinn hefur þurft að ganga í gegnum á síðustu vikum og mánuðum. Öll hugmyndafræði flokksins hefur reynst gagnlaus og hreinlega hættuleg.

Allt það sem þeir hafa verið að hæla sér var innistæðulaus blekking sem þeir þó sjálfir héldu og halda jafnvel enn að hafi verið sannleikur.

Allur ávinningurinn af stjórnkænsku þeirra gufaði upp á viku og var í raun aldrei annað en bóla full af greftri.

Allt tal um að flokkurinn þeirra væri sá eini sem hefði vit á fjármálum hefur ekki aðeins reynst rangt heldur hrein og klár öfugmæli.

Fullyrðingar um hina sterku og hæfileikaríku ráðherra og forystumenn eru bara einhver grátlegur misskilningur byggður á blindri sjálfsdýrkun sem engin stoð var fyrir í raunveruleikanum.

Allir landsfundirnir þar sem þúsund manns borguðu sig inn til að geta dáðst af formönnum sínum og til að upplifa sig í þeim hluta þjóðarinnar sem vissi og gat, deildi og drottnaði. Allt þetta hefur reynst vera leikhús fáránleikans.

Og nú hafa þau misst völdin og vita innst inni að þau líka að það var það sem þau áttu skilið.  

Ef ég væri Sjálfstæðismaður þá væri ég líka i fýlu og afneitun, það er bara mannlegt.


Ingibjörg Sólrún gengur gegn grasrótinni!

Þetta er víst það sem eitt sinn var kallað hið stjórnlynda lýðræði. Þrátt fyrir að fjölmennur fundur Samfylkingarfólks hafi í gær samþykkt ályktun um stjórnarslit þá vill Ingibjörg Sólrún halda samstarfinu áfram að minnsta kosti til vors. Þrátt fyrir að þúsundir manns hafi öskrað sig hása með slagorðinu "vanhæf ríkisstjórn" þá telur Ingibjörg Sólrún rétt að stjórnin sitji áfram.

Svo koma sömu þingmenn Samfylkingar sem í gær samþykktu ályktun um stjórnarslit fram í fjölmiðlum í dag og vilja lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórnina.Það er ekki nóg að kjósa í vor. Þetta er vanhæf ríkisstjórn sem hefur fengið sinn tíma án þess að nota hann. Sá tími er liðinn.

Allir á Austurvöll á laugardag klukkan þrjú.


mbl.is Ingibjörg vill kosningar í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig gat þetta gerst?

Hvernig gat það gerst að ótýndir skúrkar og bófar náðu að sölsa undir sig bankana og koma þjóðinni  á vonarvöl með sviksamlegum viðskiptum?  Þetta er spurning sem margir hafa velt fyrir sér.

En hvernig í ósköpunum má það vera að sömu menn eru enn á kafi í íslenskum fyrirtækjum og fjármálaumsýslu?


mbl.is FME rannsakar hlutabréfakaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband