Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Uppgjör við ESB mál Borgarahreyfingarinnar.

Nú er liðinn rúmur mánuður frá ESB máli Borgarahreyfingarinnar sem segja má að sé upphafspunktur þess óróa sem allar götur síðan hefur leikið hreyfinguna grátt, svo nú má segja að hún hafi tapað trúverðugleika sínum.

Það hefur svo margt verið sagt ósatt í þessum málum og snúið útúr öðru, einkum og sér í lagi að það hafi aldrei verið stefna Borgarahreyfingarinnar að hefja aðildarviðræður við ESB.

Mig langar því fyrst að benda á þetta sem Þór Saari skrifaði á síðu hreyfingarinnar skömmu fyrir kosningar.  Þarna er skýrt hver stefna hreyfingarinnar er í þessum málum.

http://www.borgarahreyfingin.is/2009/04/24/thor-saari-esb-og-kjarkleysid/

Þarna segir meðal annars: 

“Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum. Að þeim loknum mun aðildar samningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllum í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf.
Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratvæði.

Þetta er skynsöm leið og í raun eina færa leiðin ef menn yfirhöfuð hafa áhuga á að velta fyrir sér framtíðarkostum Íslands og taka raunhæfa afstöðu til þeirra.

Sú stefna einangrunarsinnana í Heimsýn og fjölmagrara annarra svo sem Sjálfstæðisflokksins einkennist af hræðslu við umheiminn og hræðslu við að treysta fólkinu í landinu og er í alla staði ólýðræðisleg. Sá fyrirsláttur Sjálfstæðisflokks að það þurfi fyrst að kjósa um aðildarviðræður er ömurleg birtingarmynd kjarkleysis þeirra sem ekki einu sinni þora að viðurkenna að þeir hafi skoðun á móti ESB.”

Þannig var nú það. Svo segir þinghópurinn nú að Borgarahreyfingin hafi enga stefnu haft í ESB málum.

 

Svo er hér tilvitnun í Þór Saari úr þinghúsbréfi um ESB málið, skrifuðu 11. júli:

“Borgarahreyfingin hafði sett fram þrjú skilyrði fyrir stuðningi við málið, öll sem varða lýðræðislega og vandaða afgreiðslu málsins og hlut þau öll framgang í nefndarálitinu.”

Af þessu má ljóst vera að stuðningur þinghópsins við frumvarpið var afdráttarlaus.  Þess er þó ekki getið þarna sem síðar kom fram að það var eitt í viðbót sem þinghópurinn náði í gegn sem gjald fyrir stuðninginn.  En það var að stjórnarflokkarnir tryggðu þingmönnum Borgarahreyfingarinnar sæti í þingnefndum, umfram það sem þingstyrkur sagði til um. 

Reynar kom svo síðar upp deila milli XO og Samfylkingar um þetta samkomulag þar sem Borgarahreyfingin taldi að þetta samkomulag myndi einnig gilda um stjórnir og nefndir utan þings, svo sem stjórn Seðlabankans, Þingvallanefnd, kjörstjórnir og eitthvað fleira.  Samfylkingin sagði svo ekki vera.  Þessi ágreiningur kom upp skömmu fyrir afgreiðslu ESB málsins.

 

17 júlí talar svo Þór um hvernig þau sviku sín loforð:

“Kúvending þriggja þingmanna Borgarahreyfingarinnar í afstöðunni til ESB hefur eðlilega verið mikið í fréttum og sitt sýnist hverjum. Á eftir fara skýringar mínar sem ég setti fram í lokaræðunni um ESB á þinginu í dag sem talsmaður þinghóps Borgarahreyfingarinnar. Þetta var ekki ákvörðun sem var tekin í skyndingu og þetta var ekki ákvörðun sem var auðveld enda leiddi hún okkur inn í pólitískt landslag sem við höfðum öll verið sammála um að fara aldrei inn á.

Í þessu tiltekna tilviki töldum við okkur geta náð fram ákveðnum áherslum í s.k. ICESAVE máli en ICESAVE samningarnir og samþykkt þeirra er sennilega eitthvert það versta sem gæti gerst fyrir þjóðina. Til þess að annað hvort stöðva eða breyta umfjöllun ríkisstjórnarflokkana um ICESAVE samningana töldum við rétt að leggja allt undir sem hægt var, þar á meðal stuðning okkar við ESB aðildarumsóknina. Loforð okkar við ríkisstjórnina um stuðning við ESB málið var að vísu gefið áður en okkur varð ljóst að aðgöngumiðinn að ESB var samþykkt ICESAVE samningana, en hvað um það, loforð var það engu að síður.”

Þrátt fyrir þetta allt þá var það ekki afstaðan í málinu sem var gagnrýnd, heldur vinnubrögðin. Þingmenn ákváðu upp á sitt einsdæmi að versla með stefnu hreyfingarinnar, án samráðs við grasrót og stjórn. Svokallað flokksræði var því orðið staðreynd í stað lýðræðislegu vinnubragðanna sem boðuð voru.

Það var þó ekki það sárasta í þessu máli. Sárast var að þinghópurinn taldi sig svo ekki hafa gert nein mistök og héldu því til að mynda blákalt fram að hreyfingin hefði ekki haft stefnu í þessum ESB málum. Í ofanálag vakti það svo athygli að á fundum sem haldnir voru í hreyfingunni þegar allt logaði í óánægju þá mætti í besta falli einn þingmaður en oftast enginn. Til að bæta svo gráu ofan á svart stærði Þór Saari sig af því að þessir fundir væru gagnslausir af því að hann mætti ekki.

Þetta er ástæðan að stór hópur fólks innan hreyfingarinnar hefur misst trúna á þinghópnum. Og ekki bara innan hreyfingarinnar heldur í öllu þjóðfélaginu.

Það er helst að áhangendur Heimsýnar og aðrir harðir ESB andstæðingar sem bera blak af þingmönnum og mæra þá vegna viðsnúningsins í ESB málum. Ég tek það fram að ég á ágæta vini í Heimssýn og virði þeirra störf, hef ekkert út á þau samtök að setja. En þá er aftur ágætt að rifja upp hvað einkunn samtökin fengu hjá Þór Saari fyrir kosningar:

“Sú stefna einangrunarsinnana í Heimsýn og fjölmagrara annarra svo sem Sjálfstæðisflokksins einkennist af hræðslu við umheiminn og hræðslu við að treysta fólkinu í landinu og er í alla staði ólýðræðisleg”

Nú er landsfundur Borgarahreyfingarinnar framundan.  Þar er nauðsynlegt að fara yfir þessi mál ef takast á að endurheimta trúverðugleika hreyfingarinnar.  Á fundinum verða lagðar fram nýjar samþykktir þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að svona vinnubrögð endurtaki sig.  En það er ekki nóg.  Þinghópurinn þarf að vinna sér traust að nýju, bæði innan hreyfingar og meðal þjóðarinnar.  Þar er mikið verk fyrir höndum en þó er það fyrst og fremst vilji allt sem þarf.  En er sá vilji fyrir hendi?


Flott!

Það getur verið stutt í fordóma okkar gegn innflytjendum.  Slíkir fordómar spruttu upp í aðdraganda kosninganna 2007 þegar Frjálslyndi flokkurinn gerði sérstaklega út á þá í atkvæðaveiðum.  Síðan flokkurinn lognaðist útaf hefur blessunarlega minnkað þessi fordómafulla umræða og hatursáróður.

Mér sýnist þessi mynd, "Vegurinn heim", vera mjög til þess fallinn að vinna gegn fordómum.  Vona að þetta námsefni verði svo kennt sem víðast.  Óska aðstandendum til hamingju með þetta framtak.

Allra helst vona ég að hér verði aldrei aftur gerð tilraun til þess að stofna öfgafullan þjóðernishyggjuflokk sem byggir tilveru sína á fordómum gegn því fólki sem á hvað mest undir högg að sækja í okkar þjóðfélagi.

Það hafa flogið fyrir einhverjar kjaftasögur að fyrrum félagar í Frjálslynda flokknum hyggist ganga í Borgarahreyfinguna og yfirtaka hreyfinguna á landsfundi í september.  Jafnvel að það fólk ætli svo að slá skjaldborg um þinghópinn.

Ég hef enga trú á að þetta gerist.  Ég hef gagnrýnt þinghópinn og ekkert farið í felur með að mér finnst þau hafa staðið sig afar illa í að vera í tengslum við hreyfinguna.  En það veit ég þó að þessir þremenningar munu aldrei verða þingmenn einhverra öfgafullra þjóðernissinna eða rasista. 


mbl.is Vegurinn heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súrt í broti

Ekki veit ég hversu alvarlegt þetta súrál er.  En hitt veit ég að það voru mikil mistök að ráðast í þessa álversframkvæmd.  Miklum náttúruverðmætum fórnað, raforkan seld á slikk, Landsvirkjun að fara á hausinn og Austfirðingum fækkar sem aldrei fyrr.  Þá er ótalinn þáttur þessara framkvæmda í þenslunni og þeirrar firringu sem leiddi til efnahagshruns.


mbl.is Súrál fauk um álverssvæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréf til Billa bilaða.

Ágætur maður hefur oft kveðið sér hljóðs á Mogga-bloggi og þá ekki síst í málefnum sem snúa að Borgarahreyfingunni.  Sá kallar sig Billa bilaða, sem er auðvitað rangnefni því ég held að Billi sé bráðgreindur, óbilaður og laus við alzheimer á byrjunarstigi.  Oftar en ekki þá er mikið til í því sem Billi leggur til málanna og svo var einnig í nýlegri athugasemd Billa á bloggi mínu, þar sem meðal annars kemur fram eftirfarandi:

 

Ekkert ykkar sem vill þremenningana í burtu sér nokkurn ljóð á Þráni. Enginn þeirra sem vilja Þráinn í burtu sér nokkurn ljóð á þremenningunum. (Samt eru þetta allt breyskar manneskjur, eins og þjóðin öll. Vorum við ekki að kjósa þjóðina á þing, en ekki dýrðlinga?)

 

Ég svaraði Billa og ætla að birta það svar hér í sér færslu, með örlítið breyttu orðalagi.

 

Veistu Billi, ég hef alveg heilmikið við störf Þráins að athuga.  Það runnu á mig fyrst tvær grímur gagnvart þinghópnum á fundi snemma í vor.  Þá flutti Guðmundur Andri (Gandri) pistil sem vel má vera að hafi ekki verið sanngjarn eða réttur, bara veit það ekki.  En hann var málefnalegur.  Viðbrögð Þórs og Þráins voru afar hastarleg.  Þeir lögðu til að Gandri fengi ekki að tjá sig meira á fundinum.

Þráinn hefur líkt og flestir aðrir þingmenn nánast hundsað almenna fundi hjá hreyfingunni.  Þar hefur Margrét reyndar staðið sig lang best.  Þar sem þetta á að heita grasrótarhreyfing þá finnst mér þetta mjög alvarlegur hlutur.

En Þráinn hefur staðið við stefnuna og mér finnst hann ekki hafa unnið neitt það sem gæti réttlætt það að hann segði af sér þingmennsku.  Ég þekki Þráinn mjög lítið en mér finnst hann hafa verið með afar góða pistla um stjórnmál í gegnum tíðina og skarpa hugsun þegar kemur að þjóðfélagsmálum.  Því tel ég að hann yrði góður þingmaður fengi hann að njóta sín.  En vissulega má hann taka sig á með ýmsa hluti.

 Ég vona að fyrr eða síðar komist á eðlilegt samband milli þingmanna og hreyfingar og þá muni Þráinn blómstra.  Og ég skal tala alveg hreint út.  Mér fannst afsagnarpistill Sigga Hr. magnaður.  Þar lagði hann reyndar til að öll fjögur vikju.  Ég gat tekið undir það á sínum tíma, til að fá bara hreint borð.  En eftir að þetta mál kom upp með tölvupóstana þá finnst mér rétt að Þráinn sitji áfram.  Ég tel annað nánast ómanneskjulegt.  Ég hef því heitið sjálfum mér að veita Þránni fullan stuðning og standa með honum.  Mér finnst rétt og sanngjarnt að hann fái að sanna sig og bind miklar vonir við hann satt að segja.

Ég held að það séu allir sammála um það (nema Birgitta) að það sé óviðunandi ástand innan hreyfingarinnar og að það þurfi að leysa.   Mér finnst eiginlega tvær megin áherslur uppi núna í hreyfingunni um þau mál og hvorug snýst endilega með eða á móti Þráni eða þremenningunum.   

Einn hópur vill horfa til sáttanefndar um þau mál sem komið hafa upp og sjá til fram að aðalfundi hvernig úr rætist.  Friðrik Þór, sá ágæti maður, hefur talað mjög fyrir því. 

Aðrir, svo sem stjórnartríóið, vilja meina að það hafi gerst mjög alvarlegir hlutir síðan sáttanefnd var sett á laggirnar.  Til að mynda hafa ýmsir lykilmenn sagt sig úr stjórn og hreyfingunni, svo ekki sé mynnst á tölvupóstmálið.  Því sé ljóst að sáttarnefnd muni ekki hafa erindi sem erfiði og hreyfingin sé því að liðast í sundur núna og því þurfi að bregðast við strax.  Ég er sammála þeim hópi. 

Sumir hafa talað um að Borgarahreyfingin sé þegar dauð.  Ég vona að svo sé ekki en ég óttast að hún komi ekki til með að lifa fram að aðalfundi nema eitthvað mikið og róttækt gerist til að endurheimta trúverðugleika og lægja öldur.  Hugsanlega geta þau öll þrjú verið á þingi áfram út kjörtímabil en hreyfingin sem slík væri hvorki fugl né fiskur býst ég við.  Og þá væri, líkt og Siggi Hr. benti á, búið að stela þingsætunum af hreyfingunni. 

 

Smá viðbót.  Það á við mig eins og fleiri í Borgarahreyfingunni að tölvumál eru ekki mín sterkasta hlið.  Ég sé hér að hluti textans hefur fengið gráan bakgrunn og ég kann ekki að laga það.  Sú málsgrein átti þó ekkert endilega að fanga athygli Billa umfram aðrar.


Að bjarga því sem bjargað verður.

Það hafa verið mikil átök í kringum Borgarahreyfinguna og það ekki farið framhjá mörgum geri ég ráð fyrir.  Ég hef nokkuð tjáð mig um þá stöðu sem komin er upp en þó haldið mig mikið til hlés síðustu daga.  Ástæðan er sú að nú hafa átökin ekki síst snúist um Margréti Tryggvadóttur og þá þótti mér sem málið væri mér svo skylt að ég yrði að halda mig til hlés.  Afskipti mín af málinu væri hægt að túlka sem þingmannsdrauma þar sem ég er varamaður Margrétar.

 

Nú er það svo að það er ákaflega erfitt að horfa á hreyfinguna leysast upp.  Það var skipuð sáttanefnd sem var nauðsynlegt.  En síðan það var gert hafa svo mikil tíðindi orðið að í raun höfum við ekki andrými til að bíða eftir niðurstöðum hennar og enn síður aðalfundi sem ekki verður fyrr en eftir mánuð.  Við erum að sjá á eftir mörgu af lykilfólki hreyfingarinnar gefast upp og hætta.  Í raun er nú ögurstund og ef minnsta von á að vera til þess að bjarga því sem bjargað verður.

 

Í mínum huga er það kristal tært að þremenningarnir verða að segja af sér og þá ekki síst Margrét Tryggvadóttir.  Ég ætla ekki að leggja mat á hvað henni gekk til með skeytum sínum og yfirlýsingum í kjölfarið um að hún ætti ekkert vantalað við Þráinn Bertelsson.  Það að hún komi svo og segi að hún hafi einungis viljað honum vel virkar ekki trúverðugt í ljósi fyrri skeytasendinga.  Ég vil þó taka það fram að samskipti okkar Margrétar hafa verið með ágætum og ég ber engan kala til hennar.  En með sínum skeytum og ekki síður með viðbrögðum sínum í kjölfarið hefur hún skaðað hreyfinguna alvarlega og verður því að taka afleiðingunum.

 

Ég geri mér fulla grein fyrir því að sumum kann að þykja það óeðlilegt að ég tjái mig beint út með þessum hætti og túlka það á þann hátt að ég sé að vonast eftir þægilegu sæti á þingi.  Það ætti þó flestum að vera ljóst að það verður erfitt að koma inn á þing undir þessu andrúmslofti og varla drauma staða nokkurs manns.  Ég vildi engu að síður að mín afstaða kæmi fram í þessu máli.  Ekki síst vegna þeirra hörðu viðbragða sem meirihluti fundarmanna á stjórnarfundi í gær hafa fengið við sinni ályktun.  Þetta fólk er að gera sitt besta til að bjarga hreyfingunni og á heiður skilið.

 

Ef til þess kemur að ég taki þingsæti mun ég eftir fremsta mengi reyna að starfa í sátt og samlyndi við alla sem koma að málefnum hreyfingarinnar og leitast eftir samstarfi við þá þingmenn sem þá kunna að vera í þingmannahópi hreyfingarinnar.  Þar er Þráinn Bertelsson ekki undanskilinn þó hann hafi nú sagt sig formlega úr þinghópnum.  Þá mun ég leitast við sem bestu samstarfi við alla félaga Borgarahreyfingarinnar og kjósendur.  Verkefnin framundan eru mikilvæg á þingi en einnig er það risa verkefni fyrir höndum að byggja upp innra starf Borgarahreyfingarinnar að nýju og endurheimta trúverðugleikann sem óumdeilanlega hefur glatast.


mbl.is Margrét kalli til varamann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarahreyfingin uppi á borði.

Málefni Borgarahreyfingarinnar hafa verið mikið til umræðu í fjölmiðlum en þó ekki síður í bloggheimi, athugasemdakerfum vefsíðna og Facebook, svo einhverjir staðir séu nefndir.  Þetta hefur verð á tíðum heit og óvægin umræða.  Sumt í skjóli nafnleyndar en einnig hafa ýmsir þingmenn, stjórnarmenn og félagar í hreyfingunni tjáð sig opinskátt undir nafni.

Það má spyrja sig hvort rétt hafi verið að hafa umræður um innri málefni Borgarahreyfingarinnar svona opnar, þó vissulega sé það í samræmi við "upp á borðið" kenninguna.  Sjálfur hef ég skvett ýmsu á netið, þar sem ég sitt einn í sveitinni og pirra mig yfir hlutunum og sumt hefði eflaust þar betur verið ósagt eða óskrifað öllu heldur.  En þá er rétt að hafa í huga að það hafa verið gerðar tilraunir til að ræða þetta á vettvangi hreyfingarinnar en þar hafa ýmsir lykilaðilar fengið skróp í kladdann og því lítið komið út úr "gagnlausum" fundum.  Meðan svo er þá er netið sennilega eini vettvangurinn til nauðsynlegra skoðanaskipta.  Í mínum huga eru þó opnir félagsfundir, þar sem fólk mætir og getur talað saman augliti til auglitis, besti vettvangurinn.  En þá þurfa þeir sem málið varða að sjá sér fært á að mæta.

Í síðustu viku var haldinn félagsfundur innan Borgarahreyfingarinnar.  Það var mjög góður fundur og þrátt fyrir misjafnar skoðanir og á stundum heitar umræður þá ríkti góður andi á fundinum og ég gat ekki betur séð en allir færu nokkuð sáttir út í nóttina.

Ég tel að það sé hægt að leysa ágreiningsefnin innan hreyfingarinnar og einnig að félagsfundir séu best til þess fallnir.  Þó að því gefnu að þingmenn fari að sjá sér fært að mæta.


Að stofna til skulda og Skjaldborgin sem aldrei varð til

Árni Páll Árnason hefur nú endanlega slegið af hina frægu Skjaldborg um heimilin.  Hann tók af allan vafa um það nú í Sjónvarpsfréttum að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn vill ekki afskriftir á skuldum heimilanna og væri þar sammála rikisstjórninni.

Önnur rök Árna Páls voru þau "að ekki væri hægt að ráðast í almenna niðurfellingu skulda, enda fælist í slíku að fólk, sem ekki stofnaði til skuldanna, greiddi fyrir hina sem stofnuðu til þeirra".  Þarna sést algert skilningsleysi ráðherrans á vandanum.  Fólk sem tók til dæmis 10 milljón króna lán fyrir tveimur árum skuldar nú 15 eða jafnvel 20 milljónir vegna bankahrunsins.  Það stofnaði ekki til þeirra viðbótaskulda.  

Ráðherranum er samt mikið í mun að við samþykkjum samninga um að borga skuldir IceSave og það langt umfram þær skuldbindingar sem felast í ESB samningnum.  Almenningur stofnaði ekki til þeirra skulda. 

Reyndar hafði ég smávægilega kynni af Árna þessum fyrir fáeinum árum þegar hann lék mjög tveim skjöldum í hinu svokallaða Eiðamáli sem snéri að sölu Eiða á sínum tíma.  Hann var þá nátengdur Halldóri Ásgrímssyni og tók þátt í auðmannasvikamyllu fyrir Austan, tengdur útrásarvíkingum einnig.  En það er annað mál og kannski ég rifji það upp síðar hér á þessum síðum.  En álit mitt á Árna Páli er afar lítið svo ekki sé meira sagt og ekki batnaði það álit í kvöld.


Landnemarnir

Einhvern tíman heyrði ég þá kenningu að Íslendingar væru dæmigerð landnemaþjóð.  Það sem einkennir slíkar þjóðir er oft lítil fyrirhyggja og skammtímasjónarmið og stundarhagsmunir eru látnir ráða.  Lítið hugsað um afleiðingarnar til lengri tíma og enn síður verið að spá í það hvernig landi við skilum til komandi kynslóða.

Það má vel vera eitthvað til í þessu.  Ég er reyndar helst á því að svo sé.

Fáar þjóðir hafa farið verr með náttúruverðmæti sín en Íslendingar.  Hér var árhundraða landeyðing og uppblástur vegna ofbeitar.  Í þeirri sorgar sögu er samt ótrúlegt til þess að hugsa að ástandið var aldrei verra en eftir miðja 20. öld þegar lausagangan varð algjör og beitarstýring engin að heitið gæti.  Á áttunda áratug síðustu aldar náði þetta hámarki.  Sauðfjáreign hefur aldrei verið meiri en þá og kjöt var í hundruðum tonna urðað á meðan landið blés upp og skógarleifar eyddust.  Af einhverjum ástæðum hefur svo verið haldið að okkur Íslendingum að ofbeitin hafi verið vegna þess að við þurftum að halda í okkur lífinu og stundum var öllu öðru en ofbeit kennt um uppblástur og gróðureyðingu.  Staðreyndir er sú að skógareyðing og landeyðing hér á landi er 99% vegna ofbeitar og ofbeitin var aldrei meiri en á þeim tíma sem við vorum hvað duglegust að urða lambakjöt á sorphaugum.

Annað dæmi er auðvitað stjóraiðjustefnan og hvernig hún hefur verið rekin.  Þar eru stundarhagsmunirnir í algleymingi og ekkert tekið tillit til fórnarkostnaðar á náttúru landsins.  Efnahagslegar afleiðingar til lengri tíma eru svo í besta falli engar en sennilega verulega neikvæðar.  Nú þegar þrengir að á svo enn að halda á sömu braut þrátt fyrir að vandfundar séu framkvæmdir sem gefa af sér minna fyrir þjóðarbúið.

Ef vond hugmynd er gagnrýnd þá er þá er algengasta vörnin sú að það þurfi að benda á eitthvað annað betra.  Það má ekki gagnrýna vondar framkvæmdir án þess að benda á góðar framkvæmdir.  Framkvæmdirnar eiga að vera framkvæmdanna vegna en ekki til þess að skapa framtíðar ávöxtun eða hagsæld.  Í raun ætti að snúa þessu við.  Þeir sem hyggja á framkvæmdir ættu að sína framá að þær framkvæmdir séu í raun ábatasamar og skaði ekki langtíma hagsmuni.  Sama ætti að gilda varðandi samninga og fjárskuldbindingar.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þá stundarhagsmuni og skort á framtíðarsýn sem keyrði útrásarvíkingana áfram.  Þar var þó í raun um skipulagða glæpastarfsemi óvandaðra manna að ræða og því kannski ekki alveg sambærilegt við stjórnsýslulega skammsýni.

IceSave er í raun grein af þessum sama meiði.  Við ætlum að redda skammtímavandræðum með því að gera samning sem allir eru sammála um að er vondur.  Samt á að samþykkja hann vegna þess að það þarf ekki að borga hann strax.

Og enn er sömu rökin notuð á þá sem gagnrýna vonda gjörninga.  Það verður að benda á eitthvað annað betra.


IceSave og afkomendurnir

Það er mikið talað um núna að ef við höfnum þessum vonda IceSave samningi og reynum að semja betur, þá muni lán ekki berast til landsins og endurreisn efnahagslífsins tefjist.  Eflaust er þetta rétt og satt.  En getum við hugsað svona þröngt um okkar hagsmuni?  Getum við skuldsett komandi kynslóðir áratugi fram í tímann til að flýta fyrir uppbyggingunni nú?

Þessar skuldir urðu til vegna skipulagðrar glæpastarfsemi hjá örfáum þrjótum.  En er það ekki líka glæpur ef við ætlum að ýta þessum skuldum á afkomendurna þagar allt bendir til að aðrar leiðir séu færar? 

Enn eru þessir glæpamenn á fullu í vafasömum viðskiptum.  Einn ræður sér sérstakan talsmenn til að ljúga fyrir sig og hótar lögsóknum hægri og vinstri.  Annar er nýlega búinn að koma af sér fimm milljarða skuld með kennitöluflakki fjölmiðlafyrirtækja sinna og með því að selja sjálfum sér eigin fyrirtæki fram og til baka.  Sami maður kom svo skíðahóteli undan án þess að borga krónu og veltir þar með skuldunum yfir á þjóðina.

Það sem þarf að gera er að fella IceSave samninginn sem fyrst og semja upp á nýtt.  Jafnhliða þarf að frysta eigur þessara glæpamanna sem kom þjóðinni á hausinn og hirða af þeim hverja krónu til að borga eftir þá skuldaslóðina.  Aðeins þannig er réttlætanlegt að varpa skuldum á afkomendurna að búið sé að reyna allar aðrar leiðir. 


Af fullum blaðamönnum.

Jón Ásgeir Jóhannesson keypti skíðahótel af sjálfum sér með vafasömum hætti. Afleiðingin var sú að enn meiri skuldir bófans lenda á þjóðinni í gegnum þrotabú Baugs.  Jón Ásgeir hefur það helst sér til málsbóta að nú í sumar hringdi í hann fullur blaðamaður. Dálítið súrrealískt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband